LED-væðing og Snorrabraut endurhönnuð

Ráðast á í endurnýjun á Snorrabraut á næstu árum.
Ráðast á í endurnýjun á Snorrabraut á næstu árum. Morgunblaðið/Ómar

Á þessu ári mun Reykjavíkurborg setja 1.300 milljónir í ýmiss konar uppbyggingu og gatna- og umhverfisframkvæmdir í miðborginni. Borgarstjóri segir að meginþungi af því uppbyggingarskeiði sem hefur verið í gangi undanfarin ár í miðbænum muni klárast á næstu 2-3 árum, en meðal verkefna hefur verið endurnýjun Laugavegar og Hverfisgötu og uppbygging við Austurhöfn og á Granda.

Samkvæmt erindi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hélt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær fara samtals 1,3 milljarðar af 9 milljörðum sem borgin ráðstafar í gatna- og umhverfisframkvæmdir á þessu ári í miðborgarsvæðið.

Framkvæmdir í miðbænum sem Reykjavíkurborg hefur samþykkt að fara í …
Framkvæmdir í miðbænum sem Reykjavíkurborg hefur samþykkt að fara í á þessu ári. Teikning/Reykjavík

Meðal þessara framkvæmda eru 250 milljónir í áframhaldandi endurnýjun Hverfisgötu og 170 milljónir í endurgerð Frakkastígs. Sagði borgarstjóri í erindi sínu að við enda Frakkastígs sem lægi að listaverkinu Sólfarinu við Sæbraut væri áhættuhegðun ferðamanna allt of algeng þar sem þeir færu yfir götuna. Er hugmyndin að hanna þetta svæði meðal annars með það fyrir augum til að draga úr því að fólk hlaupi yfir Sæbrautina að hans sögn.

Þá fara 150 milljónir í torg í Þingholtunum, 150 milljónir í endurgerð Tryggvagötu, milli Pósthússtræti og Lækjargötu. Þá fara aðrar 150 milljónir í endurgerð Týsgötu og 150 milljónir í bryggjugötu við Austurbakka og frágang þar. 60 milljónir fara svo í Steinbryggjuna við Austurhöfn og 220 milljónir í önnur verkefni á svæðinu.

2,8 milljarðar í nýbyggingarhverfi

Það eru þó ekki bara verkefni í miðbænum sem eru á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í ár. Samtals 2,8 milljörðum verður varið í gatna- og umhverfisframkvæmdir í nýbyggingarhverfum. Þannig fara um 500 milljónir í Vogabyggð, 300 milljónir í Gufunes þar sem byggja á upp kvikmyndaþorp. 255 milljónir fara í Hlíðarendahverfið og 250 milljónir í Úlfarsárdal.

Borgin mun setja 200 milljónir í framkvæmdir vegna uppbyggingar við Mýrargötu og 113 milljónir vegna gatnamála í tengslum við uppbyggingu á nýjum Landspítala við Hringbraut. Þá fara 105 milljónir í Kirkjusand og 610 milljónir í önnur nýbyggingarhverfi.

Af öðrum stórum fjárfestingum sem falla undir gatna- og umhverfisframkvæmdir fara 150 milljónir í umferðaröryggismál, 780 milljónir í þjóðvegi og stærri umferðargötur sem unnið er í samstarfi við Vegagerðina. Inni í þeirri tölu eru meðal annars 200 milljónir vegna endurbóta á Bústaðavegi og 70 milljónir vegna deiliskipulags fyrir Vesturlandsveg á Kjalarnesi.

450 milljónir í hjólastíga og LED-væðing götulýsingar

450 milljónir fara í göngu- og hjólastíga samkvæmt hjólreiðaáætlun og 440 milljónir fara í LED-væðingu götulýsingar. Dagur sagði í samtali við mbl.is að LED-væðingin væri hluti af snjalllausnum borgarinnar, en þannig væri bæði hægt að ná fram sparnaði í raforkukostnaði þar sem LED-lýsing sé ódýrari og þá sé mun auðveldara að stjórna lýsingunni en með hefðbundinni lýsingu. Ekki er komin nákvæm tala um hversu mikinn sparnað slíkt kerfi mun skapa, en Dagur segir að uppsetningu slíks kerfis fylgi talsverður stofnkostnaður. Þá verður 200 milljónum varið í gönguleiðir í eldri hverfum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Snorrabrautin endurhönnuð

Hafist verður handa á næsta ári við endurhönnun Snorrabrautar, en Dagur segir að þar hafi orðið fjölmörg óhugnanleg slys, meðal annars banaslys. Verði gatan endurhönnuð sem borgargata þar sem tekið verði tillit til nálægðar við Landspítala og mikillar umferðar strætisvagna. Þá segir hann að horft verði sérstaklega til athugasemda íbúa sem gert hafi athugasemdir við hraða umferð á götunni miðað við aðstæður. „Við sjáum vonandi Snorrabrautina fá svolitla andlitslyftingu á komandi árum, svipað og við höfum séð með Hverfisgötu á undanförnum árum,“ segir hann.

Stærstu verkefni ársins eru þó uppbygging íþrótta- og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal og knatthús við ÍR-svæðið í Mjódd. Fara samtals 1,6 milljarðar í verkefnið í Úlfarsárdal og 1 milljarður í knatthúsið.

1 milljarður verður settur í uppbyggingu á ÍR-svæðinu á þessu …
1 milljarður verður settur í uppbyggingu á ÍR-svæðinu á þessu ári.

Mjódd fái andlitslyftingu

Talsverðum fjármunum verður einnig varið í verkefni í eldri hverfum borgarinnar. Nefnir hann sem dæmi að borgin hafi nýlega keypt tvo verslunarkjarna í Breiðholti; Arnarbakka og Völvufell. „Þar erum við að fara að leggjast yfir skipulag og sjáum fyrir okkur andlitslyftingu á þessum gömlu hverfakjörnum. Kannski svolítið svipað og við höfum séð á Hlemmi, en mun taka mið af því sem íbúar munu segja og hvað er raunhæft á því svæði,“ segir hann. Þá segir hann að auglýsa eigi hverfaskipulag fyrir Árbæ með það fyrir augum að auka byggingarheimildir fyrir gamla verslunarkjarna þar. „Við erum að hugsa um sjálfbær hverfi og gamla hverfiskjarna sem mega muna fífil sinn fegurri.“

Í Mjódd á einnig að verja 50 milljónum í að breyta gömlu skiptistöð Strætó. Segir Dagur að borgin hafi upphaflega auglýst eftir rekstraraðila að stöðinni á sama tíma og auglýst var eftir rekstraraðila að Hlemmi. Það hafi hins vegar ekki borið árangur þá. „En við ætlum ekki að gefast upp heldur gera þessa mikið notuðu skiptistöð að einhverju meira og skemmtilegra en núna er,“ segir hann og bætir við að ekki sé útilokað að útisvæðinu verði einnig breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK