Aukinn sveigjanleiki á steypumarkaði

Pétur Ingason, framkvæmdastjóri Steinsteypunnar.
Pétur Ingason, framkvæmdastjóri Steinsteypunnar. Rax / Ragnar Axelsson

Steinsteypan er steypuframleiðslufyrirtæki sem stofnað var á síðasta ári og er þriðja fyrirtækið sem ryður sér til rúms í steypuframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu. Pétur Ingason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir fyrirtækið stefna á tæpan milljarð í veltu á árinu en sagan hefur sýnt að plássið fyrir þriðja steypuframleiðandann á höfuðborgarsvæðinu er ekki mikið. Steinsteypan hyggst hins vegar breyta því og hleypa lífi í samkeppnina en framleiðslugeta fyrirtækisins er um 100 rúmmetrar á klukkustund.

Það var dálítið hryssingslegt um að litast er blaðamann bar að garði á Koparhellu í Hafnarfirði þar sem fyrirtækið Steinsteypan er til húsa. Það var frost og þykk þoka lá yfir öllu iðnaðarsvæðinu í Kaphelluhrauni. Í húsakynnum Steinsteypunnar voru hins vegar öll ljós kveikt, steypuhrærivélin á fullum snúningi, fjöldi steypubíla og annarra vinnuvéla í gangi og auðsjáanlega nóg að gera. Pétur Ingason er framkvæmdastjóri Steinsteypunnar sem nú ryður sér til rúms á gamalgrónum markaði þar sem fyrir eru tveir risar; annars vegar Steypustöðin, og hins vegar BM Vallá en þessi tvö fyrirtæki eru stærstu fyrirtækin á steypumarkaðnum en alla jafna nemur framleiðsla á steypu hér á landi um 450 til 500 þúsund rúmmetrum á ári. Steinsteypan er því þriðja fyrirtækið sem hefur framleiðslu á steypu á höfuðborgarsvæðinu en sagan hefur sýnt að það er enginn hægðarleikur að blanda sér í þetta tveggja turna tal.
Steinsteypan.
Steinsteypan. Eggert Jóhannesson

Stofnfjárfesting nam milljarði

Að sögn Péturs sá eigendahópur Steinsteypunnar tækifæri til sóknar á steypumarkaðnum hér á landi en fyrirtækið býður meðal annars upp á sveigjanlegri afhendingartíma.

„Við sáum tækifæri í því að bæta þjónustuna. Þessi tvö fyrirtæki voru að skipta á milli sín mjög stórum markaði. Miðað við eftirspurnina hjá byggingaverktökum sáum við að það mætti koma meiri samkeppni á markaðinn. Við byggðum áætlanir okkar á því að ná ákveðnum hluta af markaðnum en við hyggjumst gera það eftir öðrum leiðum. Við einfölduðum verðskrána okkar og bjóðum upp á sveigjanlegan afhendingartíma, til dæmis á laugardögum og á kvöldin. Þar sáum við tækifæri og þarfir sem ekki var verið að sinna,“ segir Pétur í samtali við ViðskiptaMoggann.

Steypumarkaðurinn hefur verið nokkuð einsleitur á árunum eftir hrun og ákveðin samþjöppun hefur átt sér stað, ekki aðeins hvað framleiðslu á steypu varðar, heldur einnig þegar kemur að öðrum efnisvinnsluþáttum. Pétur segir þessa samþjöppun hafa veitt fyrirtækinu ákveðin tækifæri en fyrst og síðast snúast tækifæri Steinsteypunnar að hans mati um góða þjónustu. Steinsteypan kaupir öll fylliefni fyrir steypuframleiðsluna úr vottaðri námu frá Rauðamel við Stapafell og íblöndunarefni frá svissneska fyrirtækinu Sika. Sementið fær fyrirtækið einnig að utan. 17 manns starfa í dag hjá Steinsteypunni. Stofnfjárfesting í fyrirtækinu nam milljarði króna sem fólst m.a. í kaupum á 12 steypubílum, tveimur dælubílum, ásamt steypustöðinni sjálfri auk lóðar og mannvirkja. Um leið og stöðin var komin upp var hafist handa við framleiðslu og afhendingu en að sögn Péturs eru starfsmenn fyrirtækisins þaulreyndir.

„Okkar markmið er að útvega góða vöru og þjónustu. Allur okkar floti og tækjakaup miðast við það. Félagið stendur vel og mun birta ársreikning ársins 2018 fljótlega. Við gerðum vandaða rekstraráætlun, með tilliti til verðlagningar á markaði og annað, og hefur áætlunin staðist. Við sjáum fram á að félagið geti náð ásættanlegri framlegð,“ segir Pétur.

Sjá viðtalið við Pétur Ingason í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK