„Höfum tækifæri til að gera miklu betur“

„Fjárhagsstaða félagsins er mjög sterk og við erum í þeirri …
„Fjárhagsstaða félagsins er mjög sterk og við erum í þeirri stöðu að geta gripið þau tækifæri sem koma upp í breytingum á flugrekstri almennt,“ segir Bogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum tækifæri til að gera miklu betur en við höfum verið að gera,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Hann kynnti afkomu félagsins á fundi á Icelandair Hótel Reykjavík Natura í morgun.

Rekstraruppgjör fyrirtækisins var gert opinbert í gær og nam tap Icelandair Group rúmum 6,7 milljörðum króna á síðasta ári og kennir Bogi Nils erfiðu rekstrarumhverfi um, mikilli samkeppni og lágum og ósjálfbærum flugfargjöldum.

„Nú erum við að sjá félög sem hafa haft mikil áhrif á okkar markaði skila miklum taprekstri og tala um að þau þurfi að fara að draga úr vexti og bæta afkomu. Þá verður breyting á markaðnum, að okkar mati, meiri agi á framboðinu og væntanlega verður markaðssetning sjálfbærari,“ segir Bogi Nils í samtali við blaðamann mbl.is sem náði af honum tali eftir fundinn.

Icelandair með frábært vörumerki og leiðakerfi

Miklir sviptivindar hafa verið í flugrekstri undanfarna mánuði og lággjaldaflugfélög á borð við WOW air, Ryanair og Norwegian Air átt sérstaklega erfitt uppdráttar. Aðspurður hvers vegna fjárfestar ættu að hafa meiri trú á stöðu Icelandair en annarra flugfélaga segir Bogi stöðu félagsins mjög sterka.

„Fjárhagsstaða félagsins er mjög sterk og við erum í þeirri stöðu að geta gripið þau tækifæri sem koma upp vegna breytinga á flugrekstri almennt,“ segir Bogi. „Við erum með frábært vörumerki og frábært leiðakerfi. Flugrekstur verður alltaf sveiflukenndur en við höfum tækifæri til þess að gera miklu betur en við höfum verið að gera.“

Bogi hefur ekki áhyggjur af fækkun farþega.
Bogi hefur ekki áhyggjur af fækkun farþega. mbl.is/Eggert

Meðal þess sem hafði neikvæð áhrif á afkomu félagsins á síðasta ári var ójafnvægi í leiðakerfi. Bogi segir að ójafnvægið verði aðallega leiðrétt með aukinni tíðni flugferða til áfangastaða sem hafa verið lengi í leiðakerfi félagsins.

„Við aukum framboðið mun meira til Evrópu heldur en Norður-Ameríku til þess að bæta þetta jafnvægi. Þá munum við hætta flugi til Baltimore og Dallas í Bandaríkjunum og hefja flug til Dusseldorf í Þýskalandi.“

Innanlandsflugið ekki sjálfbært eins og það er í dag

Afkoma innanlandsflugs félagsins var einstaklega slæm á síðasta ári og þarfnast það mikillar endurskoðunar. Bogi segir að þegar sé búið að skera niður í framboði á innanlandsflugi frá því í fyrra. „Afkoman er engan veginn ásættanleg og í rauninni ekki sjálfbær eins og er. Við verðum að horfa til þess að gera breytingar til að bæta afkomu og gera reksturinn sjálfbæran.“

Þá segir Bogi tugi annarra hagræðingarverkefna í gangi innan fyrirtækisins, sem séð sé fram á að skili árangri á árinu. Truflanir á leiðakerfi hafi haft mikil áhrif á rekstrarafkomu síðasta árs en úrbætur í þeim efnum séu þegar farnar að skila sér.

„Truflanirnar kosta mikla peninga, en við erum að ná verulegum árangri og sjáum fram á að lækka kostnað þar talsvert. Truflanir á leiðakerfi auka til dæmis launakostnað þegar kalla þarf út áhafnir vegna seinkana og bætur til farþega bætast þar ofan á,“ útskýrir Bogi.

Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX …
Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar kemur að launakostnaði segir Bogi einnig ákveðna óvissu ríkja í kringum yfirstandandi og komandi kjaraviðræður. „Launakostnaður á Íslandi er ansi hár þegar við lítum til samkeppnislanda og af rekstrartölum félaga í flugrekstri og ferðaþjónustu er ljóst að svigrúm til kostnaðarhækkana er mjög lítið.“

„Við verðum því að finna einhverjar leiðir til þess að auka nýtingu og skipta þannig hagræðingunni á milli,“ segir Bogi. Aðspurður segir hann þó að engar uppsagnaraðgerðir séu fyrirhugaðar, en sextán starfsmönnum á skrifstofu félagsins var sagt upp um áramótin.

„Í stóru fyrirtæki verða alltaf breytingar, fólk er ráðið og í einhverjum deildum fækkar fólki, meðal annars vegna framfara í ferlum og tækni, en það eru engar stórar aðgerðir í farvatninu.“

Bogi hefur ekki áhyggjur af fyrirséðri fækkun ferðamanna til landsins. „Við erum að sjá WOW, stórt flugfélag, skera mikið niður og það hefur áhrif. Við vöxum á móti svo við höfum engar áhyggjur hvað þetta varðar,“ segir Bogi. Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX-vélum á árinu en mun leggja þremur 757 vélum á móti. Að sögn Boga fara tvær þeirra í leiguflug og sú þriðja seld í varahluti.

Fyrst og fremst snúist áskoranirnar fram undan um að bæta reksturinn. Ýmsum kostnaði sé enga stjórn hægt að hafa á, svo sem eldsneytiskostnaði. Núverandi eldsneytisvarnir félagsins séu yfir markaðsverði eftir að að eldsneytisverð náði hámarki í haust. „Við verjum okkur tólf mánuði fram í tímann, svo stundum verða varnirnar undir markaðsverði og stundum yfir. Það er eðli varna og með þessu minnkum við sveiflur.“

„Þetta spilar allt saman. Eldsneytisverð hefur hækkað en fargjöldin ekki. Flugfélög hafa verið að tapa og það gengur ekki svoleiðis til lengdar. Að gera reksturinn betri og sjálfbærari er lykilatriði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK