Minni hagnaður og hærri laun

Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja dróst saman á árinu, samtals um …
Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja dróst saman á árinu, samtals um nærri tíu milljarða króna, miðað við árið á undan. mbl.is/Samsett mynd

Hagnaður allra stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja dróst saman á milli ára og samanlagður hagnaður Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka á árinu 2018 nam um það bil 37,7 milljörðum króna, sem er um tíu milljörðum minna en hagnaður bankanna var árið 2017.

Hagnaður dróst mest saman hjá Arion banka, sem birti ársreikning sinn í dag. Þar kom í ljós að bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á árinu 2018, sem er tæplega helmingi minni hagnaður en árið 2017. Stjórn bankans leggur til að hluthafar bankans fái 10 milljarða króna greidda í arð af eign sinni, samkvæmt tilkynningu til kauphallar í dag.

Fram kom í ársreikningi Arion banka að bankinn hefði tapað nærri þremur milljörðum króna á gjaldþroti Primera Air.

Íslandsbanki birti ársreikning sinn í kvöld. Hagnaður bankans á árinu 2018 nam 10,6 milljörðum króna, en bankinn hagnaðist um 13,2 milljarða árið 2017. Stjórn bankans ætlar að leggja til að bankinn greiði 5,3 milljarða í arð til hluthafa, en bankinn er í eigu íslenska ríkisins. 

Landsbankinn skilaði lítið minni hagnaði en árið 2017 og afkoma bankans var afgerandi sú besta af stóru bönkunum þremur. Bankinn hagnaðist um 19,3 milljarða árið 2018, en hagnaður bankans árið áður var 19,8 milljarðar. Bankaráð Landsbankans leggur til að bankinn greiði eigendum sínum 9,9 milljarða króna í arð.

Hagnað bankanna þriggja árin 2017 og 2018 má sjá myndrænt hér að neðan.

Laun og hlunnindi bankastjóranna

Laun bankastjóranna þriggja, þeirra Höskuldar H. Ólafssonar hjá Arion banka, Birnu Einarsdóttur hjá Íslandsbanka og Lilju Bjarkar Einarsdóttur hjá Landsbankanum, hafa farið hækkandi á milli ára.

Laun bankastjóra Landsbankans eru lægst, en þau voru samtals 44 milljónir króna á síðasta ári. Umtalsverð hækkun launa Lilju Bjarkar á milli ára vakti þó athygli og hafa laun bankastjóra hérlendis verið til mikillar umfjöllunar í vikunni og þá sér í lagi laun bankastjóra ríkisbankanna Landsbanka og Íslandsbanka.

Þetta hefur orðið til þess að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur óskað eftir því við stjórnir fyrirtækja í eigu ríkisins að þær upp­lýsi fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið um það hvernig brugðist hafi verið við til­mæl­um ráðuneyt­is­ins, sem send voru út í janú­ar 2017 og síðar ít­rekuð, um að gæta var­kárni við launa­ákv­arðanir.

Birna Einarsdóttir var með alls 63,5 milljónir króna í laun á síðasta ári fyrir störf sín hjá Íslandsbanka, en þar af voru 3,9 milljónir árangurstengdar greiðslur fyrir árið 2014, sem enn átti eftir að greiða út. Íslandsbanki er ekki lengur með slíkt kaupaukakerfi, en þó á enn eftir að greiða bankastjóranum árangurstengdar greiðslur vegna áranna 2015 og 2016 og verður það gert á árunum 2019 og 2020.

Höskuldur er með hæstu launin af bankastjórunum þremur, en Arion banki greiddi honum 67,5 milljónir króna í laun fyrir störf hans á síðasta ári og 7,2 milljónir til viðbótar í árangurstengdar greiðslur. Arion banki er sá eini af stóru bönkunum þremur, sem ekki er í eigu ríkisins.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK