Milljarðar í gjöld til bókunarþjónusta

Velflestir gististaðir hér á landi nýta bókunarþjónustur að einhverju marki. …
Velflestir gististaðir hér á landi nýta bókunarþjónustur að einhverju marki. Ferðamenn í anddyrinu á Hótel Sögu. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Þóknunargjöld íslenskra gististaða til erlendra bókunarþjónusta nema milljörðum króna á hverju ári. Þetta fullyrðir Ferðamálastofa, sem segir lítið gegnsæi og refsingar sem gististaðir eru beittir vera meðal þess sem vekur athygli í nýrri rannsókn á þætti bókunarfyrirtækja í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.

Rannsóknin var unnin á vegum Ferðamálastofu af Rannsóknasetri verslunarinnar og voru fyrstu niðurstöður hennar kynntar í dag á fundi sem Ferðamálastofa stóð fyrir í samvinnu við Íslenska ferðaklasann.

Niðurstöðurnar kynntu þeir Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, og  Aron Valgeir Gunnlaugsson. Í kynningunni kom fram að íslenskir ferðaþjónustuaðilar, líkt og ferðaþjónustuaðilar víða um heim, selja stóran hluta afurða sinna í gegnum bókunarþjónustur (e. Online Travel Agencies, OTAs).

Svo gott sem allir gististaðir hér á landi nýta bókunarþjónustur að einhverju marki, þótt hlutfallið sé mismunandi á milli gististaða. Eins eru viðhorf rekstraraðila gististaða til slíkra fyrirtækja sögð vera mjög ólík. Liggja stöðluð þóknunargjöld bókunarþjónusta í gististarfsemi á bilinu 15% og upp í 20%, en þó eru dæmi um að stærstu hótelkeðjurnar njóti betri kjara.

„Um er að ræða töluverða hagsmuni fyrir íslenska ferðaþjónustu en þóknunargjöld gististaða til bókunarþjónusta nema milljörðum á hverju ári,“ segir í fréttatilkynningu  um rannsóknina.

Lágmarksverðkvaðir (e. Price Parity Clauses) eru settar í samninga á milli gististaða og bókunarþjónusta og er þar kveðið á um að ekki megi bjóða lægra verð annars staðar en hjá viðkomandi bókunarþjónustu. Hefur gististöðum verið refsað fyrir að brjóta þessar lágmarksverðkvaðir, meðal annars í sýnileika í leitarniðurstöðum.

„Lítið gegnsæi er í þeim algrímum sem bókunarþjónustur nýta til að raða gististöðum í leitarniðurstöðum og taka því margir rekstraraðilar ekki eftir því ef gististað þeirra er refsað. Á sama máta og gististaðir kappkosta að vera sem sýnilegastir á bókunarsíðunum, kappkosta bókunarsíðurnar að vera sem sýnilegastar í leitarvélum á netinu. Af þessum sökum hafa bókunarþjónustur gríðarlegan kostnað af leitarvélabestun og kaupum á leitarorðum á leitarvélum eins og Google,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK