WOW air verður endurskipulagt

WOW air stendur frammi fyrir algjörri uppstokkun.
WOW air stendur frammi fyrir algjörri uppstokkun.

Stefnt er að því að kynna á morgun áætlun um endurskipulagningu WOW air. Felur hún í sér að skuldum verði umbreytt í hlutafé. Reiknað er með nýjum fjárfestum að félaginu.

Fulltrúi fjárfesta sem tóku þátt í skuldabréfaútboði í september síðastliðnum staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Viðkomandi óskaði nafnleyndar.

Sagði hann skuldabréfaeigendur og kröfuhafa hafa fundað um málið alla helgina. Það hafi verið orðið ljóst á laugardag að Icelandair myndi ekki hafa aðkomu að WOW air.

Bjóða meirihluta félagsins til kaups

Sagði hann niðurskurð WOW air hafa skilað sér í batnandi rekstri. Skuldirnar væru hins vegar þungar að bera. Hugmyndin sé að umbreyta núverandi skuldum í hlutafé sem væru 49% hlutafjár og bjóða 51% í félaginu til kaups. Munu nýir aðilar í eigendahópnum njóta forgangs, meðal annars varðandi sölu bréfa í endurskipulögðu félagi.

„Tölurnar fara stigbatnandi. Áhrif þessara breytinga eru að koma fram. Félagið er að verða sjálfbært. Það þarf ekki mikla fjármuni til að búa til mjög flott félag. Það verður mjög áhugavert það tilboð sem fjárfestum verður boðið að koma inn í eftir að búið er að setja félagið í búning sem lítur mjög vel út fyrir þá sem koma að félaginu. Það eru ágætislíkur á að einhver í hópi skuldabréfaeigenda og eða kröfuhafa sjái sér tækifæri í að kaupa rúman helming í félaginu,“ sagði skuldabréfaeigandinn.

Félagið verði lítt skuldsett

„Það hefur verið unnið alla helgina að plani um að bjarga fyrirtækinu. Það verður kynnt á morgun. Nánast allir kröfuhafar gefa eftir skuldir og koma til með að eiga hlutafé í lítið skuldsettu félagi sem verður spennandi fjárfestingarkostur,“ sagði hann.

Símafundir hafa farið fram vegna endurskipulagningarinnar en margir kröfuhafar eru erlendir. Sagði heimildarmaðurinn að viðtökurnar við þessum hugmyndum hafi verið góðar.

Annaðhvort stefni Wow air í þrot eða því verður bjargað á þennan hátt.

Spurður hvers vegna Icelandair hafi ekki ákveðið að taka yfir WOW air úr því lausnin er svo einföld sagði skuldabréfaeigandinn að þessi afskriftaleið hafi fyrst orðið fær „eftir að menn áttuðu sig á að það væri engin önnur leið“. Icelandair hafi annars vegar ekki treyst sér til að taka á sig skuldaklafa WOW air, ef um yfirtöku væri að ræða. Með yfirtöku hefði Icelandair tekið við öllum skuldaklafanum og orðið að vinna úr honum. Hins vegar hafi félagið ekki treyst sér „til að velja bestu bitana úr búi WOW air“. Slíkt hefði líka getað framkallað málsóknir.

„Það var ljóst í gær að Icelandair treysti sér því ekki í þetta verkefni. Það stefnir í einn versta, ef ekki versta ársfjórðung í sögu Icelandair,“ sagði hann.

Þá fullyrti skuldabréfaeigandinn að langur tími gæti liðið þar til Icelandair getur tekið Boeing Max-þoturnar í notkun en þær hafa verið kyrrsettar vegna tveggja flugslysa í Indónesíu og Eþíópíu. Það hljóti að skapa WOW air tækifæri í sumar. Það væri altalað í flugheiminum að vandi Max-þotnanna yrði ekki leystur með hraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK