Fall WOW air yrði mikið högg

Stjórnendur Íslenskra fjallaleiðsögumanna unnu í gær að viðbragðsáætlun vegna mögulegs brotthvarfs WOW air af markaði.

Arnar Bjarnason, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna, segir ljóst að brotthvarf WOW air muni hafa töluverð áhrif á félagið.

Meðal annars hafi langflestir bandarískir viðskiptavinir Íslenskra fjallaleiðsögumanna komið með íslensku flugfélögunum.

Viðbrögð annarra flugfélaga geti mildað áhrifin af brotthvarfinu. Það sé ekki sjálfgefið að orðið sé of seint að bjarga ferðasumrinu.

„Yfirleitt hafa 50% viðskiptavina okkar í ævintýra- og fjallaferðum verið Bandaríkjamenn. Það er langstærsti viðskiptahópur okkar. WOW air hefur verið stórt í flugi til Bandaríkjanna. Menn hafa því miklar áhyggjur,“ segir Arnar.

Finna fyrir samdrætti

Hann segir fyrirtækið lengi hafa undirbúið aðlögun. Samruni við Arcanum ferðaþjónustu hafi verið hluti af því hagræðingarferli.

„Við höfum verið að aðlaga okkur að breyttu rekstrarumhverfi en það getur reynst erfitt að bregðast hratt við þar sem vörur eru seldar langt fram í tímann. Launakostnaður er orðinn allt of hár en verð hafa ekkert hækkað síðustu árin. Framlegðin hefur minnkað stöðugt síðustu ár. Þegar kjarasamningar bætast við óvissuna kallar það á að menn þurfa að sameinast mjög hratt.

Við höfum fundið fyrir samdrætti frá Bandaríkununum og öðrum mörkuðum. Við höfum hins vegar náð okkar áætlunum hingað til. Við erum mjög sátt með það. Það er engu að síður gríðarleg óvissa og hún þýðir að menn þurfa að vera tilbúnir að breyta mjög hratt, sem er oft og tíðum mjög erfitt,“ sagði Arnar.

Sigurjón Þór Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Norrænu ferðaskrifstofunnar, segir félagið ekki verða fyrir miklu höggi ef WOW air hættir starfsemi. Ferðaskrifstofan hafi enda meðvitað bókað ferðir með öðrum flugfélögum eftir að óvissan um WOW air komst í hámæli.

Hins vegar muni ferðaskrifstofan verða fyrir höggi eins og allir aðrir í íslenskri ferðaþjónustu ef flugfélagið fer í gjaldþrot.

Þrjár sviðsmyndir á borðinu

Morgunblaðið hefur undir höndum sviðsmyndagreiningu þar sem mat er lagt á afleiðingar slíkrar allsherjarstöðvunar og hvert umfangið á mögulegum flutningum strandaðra farþega yrði dagana á eftir. Áætlunin miðast reyndar við 11 véla flota WOW air en áætlanir höfðu í gær ekki verið uppfærðar með tilliti til fregna af kyrrsetningu vélanna tveggja. Reyndar hefur kyrrsetning TF-NOW mun minni áhrif í þessa veru þar sem vélin hefur verið nýtt í leiguverkefni milli Kúbu og Bandaríkjanna að undanförnu og því er ekki um tengifarþega að ræða í þeim tilvikum þar sem niðurfelling ferða þeirrar vélar hefur orðið að veruleika.

Þrjár sviðsmyndir hafa verið teiknaðar upp sem gera ráð fyrir ólíkri staðsetningu véla WOW air, allt eftir því hvenær dags kæmi að allsherjar rekstrarstöðvun þess.

Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir stöðu þar sem vélar félagsins væru staddar í heimahöfn, þ.e. á Keflavíkurflugvelli. Það gerist tvisvar á dag, eða fyrir kl. 6.00 á morgnana og milli 13.00 og 16.00 síðdegis.

Ef rekstur WOW myndi stöðvast snemma morguns myndi það þýða að um 1.500 farþegar væru strandaðir á Íslandi og um 500 Íslendingar í Evrópu kæmust ekki heim með félaginu þann daginn eins og þeir ætluðu sér. Ef reksturinn stöðvaðist hins vegar upp úr hádegi væru 700 farþegar strandaðir í Keflavík og um 150-180 Íslendingar í Norður-Ameríku kæmust ekki heim.

Önnur sviðsmyndin gengur út frá því að rekstur myndi stöðvast í kjölfar þess að vélar félagsins halda af stað til Evrópu eða eru ekki lagðar af stað frá áfangastöðum í álfunni. Þá væru um 400 Íslendingar strandaðir þar og um 700 erlendir ferðamenn staddir á Íslandi sem ekki kæmust í síðdegisflug sem þeir ættu pantað til Norður-Ameríku.

Þriðja sviðsmyndin gerir ráð fyrir því að rekstur myndi stöðvast eftir að vélar félagsins halda á leið til Norður-Ameríku eða eru ekki farnar á loft frá áfangastöðum í álfunni að nýju. Í því tilviki má gera ráð fyrir að um 200 Íslendingar væru strandaglópar víða í álfunni.

Morgunblaðið fjallar ítarlega um málefni WOW air í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK