Ekki hótun hjá ÍSAM

Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM.
Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM. Kristinn Magnússon

„Ég skil vel að þetta hafi vakið eftirtekt, en ég skil ekki að menn skuli líta á þetta sem einhverja hótun eða klofning hjá SA. Þá er búið að snúa hlutunum svolítið á hvolf.“

Þetta segir Hermann Stefánsson, forstjóri heildsölu- og framleiðslufyrirtækisins ÍSAM, í samtali við mbl.is en fyrir helgi boðaði ÍSAM hækkun á öllum vöruflokkum verði nýir kjarasamningar samþykktir. ÍSAM á m.a. Mylluna, Ora, Frón og Kexsmiðjuna.

Fregnirnar af hækkuninni hafa víða vakið viðbrögð, en sem dæmi sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, að honum þætti ósmekklegt að setja hækkanirnar fram með þessum hætti, og að það liti út eins og klofningur væri innan Samtaka Atvinnulífsins.

Breyta verði reglulega

„Við breytum verði reglulega, bæði hækkum og lækkum eftir því sem hefur áhrif á starfsemi okkar, svosem gengi og kostnaðarhækkanir,“ segir Hermann sem segir að slíkar breytingar séu ætíð tilkynntar viðskiptavinum fyrirtækisins. 

Aðspurður segir Hermann að tímasetning hækkunarinnar hafi ekki verið heppileg, og komið hafi til greina að bíða þar til kjarasamningar væru samþykktir. Þá væri hins vegar komið ansi nálægt mánaðamótum, og fyrirtækið hafi skyldum að gegna gagnvart viðskiptavinum. „Við hefðum auðvitað getað sleppt fyrirvaranum um samþykki samninganna,“ segir Hermann sem segist bæði telja og vona að samningarnir verði samþykktir.

Íslenskur iðnaður á í vök að verjast

Hermann segir að fyrirtækið sé ekki að velta allri kostnaðarhækkun vegna kjarasamninganna út í verðlagið beint, enda taki það á sig hluta af þeirri kostnaðaraukningu sem þeir muni hafa í för með sér sjálft. Þá bætir hann við: „Hins vegar má þessi íslenski iðnaður nú ekki við miklum kostnaðarhækkunum. Hann er í gríðarlegri samkeppni við innflutta vöru, og á í vök að verjast. Við erum í nauðvörn og það má lítið út af bregða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK