Skaðlegt fyrir markaðinn að framlengja óvissu

Framkvæmdir í miðborg Reykjavíkur.
Framkvæmdir í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/​Hari

Félagið Blómaþing hefur byggt íbúðir í miðborg Reykjavíkur. Nú síðast 66 íbúðir á svonefndum Frakkastígsreit.

Þorsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Blómaþings, segir óvissu í efnahagsmálum hafa haft mikil áhrif á markaðinn. Þá annars vegar vegna erfiðleika og loks gjaldþrots WOW air og hins vegar vegna kjarasamninga. Nú séu þessir óvissuþættir að baki. Þá hafi það auðvitað áhrif á allan fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu að svo margir skuli hafa misst vinnuna við fall WOW air.

„Kjarasamningar stoppuðu allt saman. Þegar allt er talað niður fer fólk að halda að sér höndum. Þegar það sér hins vegar að ástandið er ekki svo slæmt fer það aftur að fyllast meiri bjartsýni,“ segir Þorsteinn og víkur að loforðum sem gefin voru vegna kjarasamninga.

Almenningur bíði eftir aðgerðum í húsnæðis-, skatta- og lánamálum. Líkt og áðurnefndir óvissuþættir í efnahagsmálum skapi útfærsla þessara loforða óvissu á fasteignamarkaði. Meðal annars hafi verið gefnar væntingar um vaxtalækkanir sem aftur kunni að valda því að almenningur bíði með lántökur. Hins vegar sé alls óvíst með efndirnar. Þá sé afnám 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána misráðið. „Fólk getur valið hvort það vill verðtryggt eða óverðtryggt lán. Það hefur möguleika á að taka 25 ára lán. Af hverju á að banna því að taka 40 ára lán? Ég hef ekki séð rökin,“ segir Þorsteinn, sem telur brýnt að útfærslur loforða í húsnæðis-, skatta- og lánamálum líti dagsins ljós sem allra fyrst.

26 íbúðir af 66 eru óseldar á Frakkastígsreit. Þorsteinn segir aðspurður að salan sé hægari en búist var við. Áðurnefnd óvissa vegi þar þungt.

Fram kom í Morgunblaðinu sl. fimmtudag að senn yrðu um 300 nýjar íbúðir í sölu í miðborginni. Þorsteinn telur að í lok næsta árs verði þær flestar seldar.

„Ég tel að íbúðamarkaðurinn í miðborginni sé ekki yfirkeyrður. Það hefur skort litlar íbúðir á þessu svæði. Það er náttúrlega offramboð í augnablikinu og salan mun taka eitthvað lengri tíma en áætlað var. Menn áætluðu að vera búnir að selja íbúðirnar á næsta ári. Ég tel að það muni takast nokkuð vel að ná því markmiði. Það hefur alltaf sýnt sig að miðborgaríbúðir seljast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK