Hulda Ragnheiður nýr formaður FKA

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, er nýr formaður Félags …
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, er nýr formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Ljósmynd/FKA

Hulda Ragnheiður Árnadóttir var kjörinn formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær. Hulda Ragnheiður er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands og hefur setið í stjórn FKA á þessu starfsári. 

Í framboði til formanns var einnig Rakel Sveinsdóttir, sitjandi formaður FKA, sem sóttist eftir endurkjöri. Rakel hlaut 144 atkvæði og Hulda Ragnheiður 182 atkvæði. Rakel segir því skilið við embætti formanns sem hún hefur sinnt frá 2016.

Hulda Ragnheiður segir í samtali við mbl.is að von sé á einhverjum breytingum innan félagsins, samhliða því sem unnið verður áfram að mikilvægum verkefnum sem félagið sinnir nú þegar. „Það verður engin stefnubreyting með þau en við munum innleiða aðrar aðferðir til að sækja meira til félagskvenna að hugmyndum og þátttöku,“ segir Hulda Ragnheiður.

Hún segir verkefnið fram undan jafnframt krefjandi og spennandi sem hún hlakkar til að takast á við og fá á sama tíma tækifæri til að virkja enn fleiri konur til þátttöku.

Stjórn FKA 2019-2020: Áslaug Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, …
Stjórn FKA 2019-2020: Áslaug Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, Lilja Bjarnadóttir, Sigríður Hrund Pétursdóttir en á myndina vantar Huldu Bjarnadóttur sem var erlendis sem og Margrét Jónsdóttir Njarðvík. Ljósmynd/FKA

Í framboði til stjórnar voru sjö konur um þrjú sæti til tveggja ára og tvö sæti til eins árs. Sigríður Hrund Pétursdóttir, Ragnheiður Aradóttir og Áslaug Gunnlaugsdóttir voru kosnar í stjórn til tveggja ára. Til eins árs voru kosnar Hulda Bjarnadóttir og Margrét Jónsdóttir Njarðvík. Að auki situr Lilja Bjarnadóttir í stjórn, en hún var kjörin til tveggja ára árið 2018.

Í tilkynningu frá félaginu er fyrrum formanni FKA, Rakel Sveinsdóttur og fráfarandi stjórnarkonum, Önnu Þóru Ísfold og Guðrúnu Ragnarsdóttur þakkað fyrir stjórnarstörf og framlag til félagsins.

FKA var stofnað árið 1999 og er öflugt tengslanet athafnakvenna úr öllum greinum atvinnulífsins. Félagið vinnur með aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að því að efla og benda á þátt kvenna í stjórnum eða stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Félagið stendur fyrir viðburðum, fræðslu, veitir ráðgjöf og knýr fram breytingar á lögum og venjum til að gæta jafnvægis og fjölbreytileika innan atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK