Draga lækkunina að hluta til baka

mbl.is/afp

Verð eldsneytis á bensínstöðvum Dælunnar hefur aftur hækkað eftir að félagið lækkaði verð sitt í síðustu viku. Var félagið þá að bregðast við samkeppni frá Orkunni sem lækkaði verð á tveimur stöðvum. ÓB fylgdi í kjölfarið með lækkun á þremur stöðvum, en í um eitt ár hefur Atlantsolía við Kaplakrika boðið upp á sambærilegt verð og Costco hefur boðið upp á fyrir viðskiptavini með Costco-kort.

Stöðvarnar sem um ræðir lækkuðu verð sitt niður í um 211 krónur á lítra. Flestar stöðvarnar höfðu það sameiginlegt að vera á svipuðu svæði og Costco-stöðin og stöð Atlantsolíu við Kaplakrika. Það er, ná til þeirrar umferðar sem fer um Reykjanesbrautina milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eða á svipuðum slóðum. Þannig voru stöðvar Orkunnar sem lækkuðu verð við Dalveg og Reykjavíkurveg og stöðvar ÓB við Fjarðarkaup, Bæjarlind og Arnarsmára.

Dælan ákvað hins vegar að lækka verð á öllum fimm stöðvum sínum. Ein þeirra er reyndar við Hæðasmára og önnur við Stekkjarbakka, en hinar eru aðeins úr leið miðað við skilgreininguna hér að ofan, þ.e. við Holtagarða, Fellsmúla og Salaveg.

Er verð á bensíni á þessum fimm stöðvum Dælunnar nú komið upp í 219,9 krónur á lítra samkvæmt bensinverd.is, meðan verð á hinum stöðvunum sem nefndar hafa verið er um 211 krónur á lítra. Er Dælan þar með miðja vegu milli stöðva Orkunnar, Atlantsolíu og ÓB sem hafa lækkað verð og svo allra annarra stöðva félaganna, en þar er algengt verð á milli 234 og 239 krónur á lítra.

Getur því munað allt að 28 krónum á lítra ef fyllt er á bíl á bensínstöð sem hefur lækkað verð eða þeim sem enn eru með hæsta verð. Fyrir bíl með 40 lítra tank er því um að ræða 1.120 krónur á hvern tank sem fylltur er.

Ath. að skoða þarf verð ÓB sundurliðað á heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK