„Fátt við þessu að gera“

WOW varð gjaldþrota að morgni 28. mars síðastliðins.
WOW varð gjaldþrota að morgni 28. mars síðastliðins. mbl.is/​Hari

„Það er fátt við þessu að gera. Sala losunarheimildanna átti sér stað áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Búið tók við greiðslum vegna sölunnar,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og annar skiptastjóri þrotabús WOW air um stjórnvaldssekt á þrotabú WOW air að upphæð 3.798.631.250 króna vegna vanrækslu flugrekanda á að standa skil á losunarheimildum fyrir árið 2018.

„Við höfum sagt við Umhverfisstofnun að lýsa kröfu í búið og svo tökum við afstöðu til hennar þegar að því kemur,“ bætir Sveinn við. Hann segir að það verði tekið til sjálfstæðrar skoðunar hvort þrotabúið andmæli sérstaklega sektinni.

Spurður hvort íslenska ríkið yrði stærsti kröfuhafi í þrotabúið ef sektin yrði samþykkt segir Sveinn að ríkið yrði með þeim stærri en ekki stærsti kröfuhafinn.

Krafa frá tollayfirvöldum í Þýskalandi

Um er að ræða lang­hæstu sekt sem Um­hverf­is­stofn­un hef­ur lagt á. Ísland er aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir. Það miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði og flugi og reglan er sú að sá borgar sem mengar.

Sveinn segir að ýmsir aðilar séu að lýsa kröfum í búið en frestur til þess rennur út 3. ágúst. Umhverfisstofnun sé ekki eini aðilinn sem lagt hafi sektir á félagið. Hann nefnir sem dæmi kröfu frá tollayfirvöldum í Þýskalandi.

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Eggert

„Allt eru þetta kröfur og lögin gera ráð fyrir því að þær fari í ákveðið ferli. Við skoðum þetta þegar kröfulýsing kemur inn í búið með lögmætum farvegi sem gjaldþrotalögin gera ráð fyrir.“

Spurður hvort Sveinn og Þorsteinn Einarsson, skiptastjórar þrotabúsins, hafi gert sér grein fyrir því að WOW ætti ekki losunarheimildir þegar þeir tóku starfið að sér segir hann fjármuni hafa komið inn í búið vegna sölu kolefnisjöfnunarkvóta á markaði í Bretlandi, sem þegar hafði átt sér stað.

Félagið komið í þrot þegar geri átti upp losunarheimildir

Sveinn segir að skiptastjórar hafi snemma fengið vitneskju um það og fjármunirnir runnið inn í búið. Síðasti dagur til að gera upp losunarheimildir síðasta árs var, eins og áður hefur komið fram, 30. apríl 2019. Rúmlega mánuði áður hafi félagið verið tekið til gjaldþrotaskipta, sem breytti algerlega stöðunni. Skylda félagsins til að skila þessum heimildum hafi ekki færst yfir á búið, útskýrir Sveinn. 

„Þá var félagið komið í þrot og starfsemin hætt,“ segir Sveinn og bætir við að fyrirtækið sé komið inn í regluverk gjaldþrotalaga. Þá séu engar heimildir fyrir þrotabúið að ráðstafa peningunum sem hafa komið inn með öðrum hætti en fyrirmæli eru um í gjaldþrotalögum. Þá þarf einhver annað hvort að lýsa búskröfu og gera þannig tilkall til þessara fjármuna eða einfaldlega lýsa almennri kröfu í búið.

„Sýni enginn fram á eignarhald sitt, er þessum fjármunum eins og öðrum skipt upp á milli kröfuhafa."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK