Ragnar Þór geti ekki haldið áfram

VR skipar fjóra menn í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. FME segir …
VR skipar fjóra menn í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. FME segir að þeir sitji enn þrátt fyrir að VR hafi afturkallað umboð þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðsverslunarmanna, segir að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, muni ekki geta haldið til streitu þeirri ákvörðun að afturkalla umboð fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins, en Ragnar Þór kvaðst í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi munu halda vegferð sinni áfram. Upphaflega var ákvörðunin tekin í ljósi þess að stjórn LV ákvað að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána.

Í dreifibréfi fjármálaeftirlitsins til stjórna lífeyrissjóða í gær kom fram sú afstaða að stjórnarmennirnir væru áfram stjórnarmenn í sjóðnum. Rakti FME meðal annars að ákvörðunin hefði stafað frá fulltrúaráði VR en ekki stjórn, líkt og kveðið væri á um í samþykktum lífeyrissjóðsins. 

Þá var vísað til yfirlýsinga VR vegna ákvörðunarinnar og ítrekaði að stjórn lífeyrissjóðsins væri óheimilt að hafa aðra hagsmuni í huga við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins en þá sem nefndir væru í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. 

Sagði FME að ef afturköllun VR, byggð á sjónarmiðum sem fram komu í yfirlýsingum félagsins um vaxtahækkanir stjórnarinnar, næðu fram að ganga, mætti líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn sjóðsins væri að ræða sem væri með óbeinum hætti ætlað að færa ákvörðunarvald frá henni. Það vægi að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.

FME staðfesti fyrri skilning á málinu

Ólafur Reimar segir FME með niðurstöðu sinni staðfesta það sem hann hafi fengið að vita munnlega frá FME á fyrri stigum málsins. „Þeir líta svo á að þeir séu sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn sem tilkynntir voru til FME 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir,“ segir hann.

FME beindi því til lífeyrissjóðanna að taka samþykktir til skoðunar varðandi hvort og þá við hvaða aðstæður tilnefningaraðilar gætu afturkallað umboð stjórnarmanna, m.a. til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna gagnvart hagsmunum tilnefningaraðila.

Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

„Þeir sendu dreifibréf á alla lífeyrissjóði þar sem segir að vanti skýrar inn í samþykktir sjóðanna hvernig menn geti tekið umboð af stjórnarmönnum. Það sé ekki sjálfgefið að það sé hægt að kippa þeim til baka án nokkurra ástæðna. Mér sýnist að þeir fari fram á að sjóðirnir fari yfir samþykktir sínar og kanni hvaða reglur eigi að gilda um afturköllun umboðs stjórnarmanna. Þetta komi hvorki skýrt fram í lögum um lífeyrissjóði né samþykktum þeirra,“ segir hann.

Haldi ekki áfram á sömu forsendum

Í bréfinu vísar FME til þess að í samþykktum LV sé ekki fjallað um heimildir til að afturkalla tilnefningar. Aftur á móti sé að félagarétti almennt viðurkennt að heimilt sé þeim aðila sem tilnefnt hefur í stjórn að afturkalla slíka tilnefningu að ákveðnum skilyrðum uppfyllt. Þessi heimild sé þó ekki án takmarkana. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagst ætla að halda veg ferð sinni áfram og afturkalla umboð stjórnarinnar. 

„Mín afstaða er sú að ég held hann geti ekki haldið þessu áfram á þeim forsendum sem hann gerði í afturkölluninni eins og hún er í gangi núna. Fjármálaeftirlitið segir að þetta sé einfaldlega íhlutun í störf stjórnarinnar. Að við tökum þarna ákvörðun sem stjórnarmenn og á þeim grundvelli sé ekki hægt að afturkalla umboðið. Þá er spurningin hvernig er hægt að gera þetta, eða hvort það sé hægt. Ég þori ekki að segja til um það,“ segir Ólafur Reimar. „Það að hann haldi áfram á þessari leið, held ég að gangi ekki,“ segir hann.

Yfirlýsingarnar séu undirliggjandi ástæða

Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi kvaðst Ragnar Þór, spurður á hvaða forsendum hann myndi taka ákvörðun um afturköllun umboðs stjórnarmannanna, ekki þurfa að gefa ástæðu fyrir ákvörðun sinni. Inntur álits á þessum ummælum kveðst Ólafur Reimar ekki þora að segja til um það hvort Ragnari Þór sé þetta unnt.

„Ég þori ekki að segja til um það. Við fengum lögfræðiálit áður en við svöruðum FME og þar var talið að þetta væri ekki hægt. Það væri ekkert í lögum sem segði til þess að það væri hægt að afturkalla umboðið án þess að hafa fyrir því skýra ástæðu fyrir afturkölluninni. Í þessu tilfelli væri þetta bein íhlutun vegna starfa stjórnarinnar og það gengi bara alls ekki upp,“ segir Ólafur Reimar.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að þó hann gefi enga ástæðu fyrir þessu, að það sé samt íhlutun því upphaflega var þetta gert út af þessari hækkun á vöxtunum,“ segir hann. „Ég hugsa að menn myndu líta á þetta sem undirliggjandi ástæðu,“ segir hann.

Stjórnin hefur heimild til breytingar á samþykktum

Sem fyrr sagði beindi FME þeim tilmælum til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar hvað varðar afturköllun umboðs stjórnarmanna. Samkvæmt samþykkum LV eru breytingar á samþykktum sjóðsins samningsatriði VR og þeirr samtaka atvinnurekenda sem að honum standa. Þar er þó einnig kveðið á um heimild til handa stjórninni til þess að breyta samþykktum sjóðsins án þess að bera þær undir aðildarsamtök sjóðsins, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða.

Spurður um þessa heimild segir Ólafur Reimar að stjórnin muni hittast í dag eða á morgun og ráða ráðum sínum. Hann segir ekki ólíklegt að málið verði tekið fyrir á stærri vettvangi. „Miðað við dreifibréfið finnst mér þetta dálítið eiga heima á borði Landssamtaka lífeyrissjóða því þessu hlýtur að þurfa að breyta hjá öllum lífeyrissjóðum samkvæmt því sem FME segir. Þá kæmi það frekar þaðan heldur en beint frá hverri og einni stjórn,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK