Brexit án samnings slæmt fyrir Ísland

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Fari svo að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án útgöngusamnings gæti Ísland tapað einna mest á því að Bretum undanskildum, samkvæmt umfjöllun Financial Times um hugsanleg efnahagsleg áhrif af útgöngu Breta.

Umfjöllun FT má lesa hér.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, undirbýr Breta nú af miklu kappi fyrir útgöngu úr ESB og hyggst m.a. á næstunni ætla að hleypa af stokkunum stærstu auglýsingaherferð þar í landi frá seinni heimsstyrjöld, um það að gera Bretland stakk í búið til þess að takast á við útgöngu án samnings.

Þann 31. október næstkomandi kemur í ljós hvort af útgöngu Breta verði með tilheyrandi afleiðingum en greinarhöfundar FT nefna m.a. möguleikann á „lyfjaskorti, truflunum á flugi og endalausum röðum við landamæri.“

Að mati Financial Times gætu afleiðingar af útgöngu Breta án samnings haft mest áhrif á eftirfarandi þætti: Flæði gagna, fjármálaþjónustu, tollamál, samgöngur og fiskveiðar.

Hér sjást efnahagsleg áhrif Brexit á mann; hvort sem koma …
Hér sjást efnahagsleg áhrif Brexit á mann; hvort sem koma mun til mjúkrar eða harðrar útgöngu Breta úr ESB.Gögn Financial Times byggja á skýrslu BertelsmannStiftung. Heimild/Financial Times og BertelsmannStiftung.

Flæði gagna

Hvað flæði gagna varðar kemst FT að þeirri niðurstöðu að Bretland og Evrópusambandið muni skaðast jafn mikið. Gríðarlegt magn af persónugögnum frá Evrópu og Bretlandi berast á milli fyrirtækja á opinberra stofnana á hverjum degi. Lögmæti þessa miklu gagnaflutninga gæti verið stefnt í tvísýnu verði af útgöngu Breta án samnings með tilheyrandi áhrifum á fyrirtæki; svo sem tæknifyrirtæki og fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. Truflun á flæði þessara gagna gæti skapað ýmsar hindranir fyrir viðskipti, og í versta falli, orðið til þess að bresk fyrirtæki þurfi að stöðva starfsemi í Evrópu. 

Fjármálaþjónusta

Hvað fjármálaþjónustu snertir gerir útganga án samnings það að verkum að fjármálafyrirtæki í Bretlandi geta ekki lengur starfað á innri markaði Evrópusambandsins. Ýmsar bráðabirgða ráðstafanir hafa þó verið gerðar komi til harðrar útgöngu Breta en nú þegar hefur t.a.m. Barclays bankinn eytt um 200 milljónum punda í undirbúning fyrir Brexit. Ljóst er að verði af áætlunum Breta muni þeir ekki njóta jafn mikils markaðsaðgangs og áður en niðurstaða greinarhöfunda er sú að breskur efnahagur gæti á þessu sviði þurft að takast á við miklar truflanir.

Tollabandalag

Samhliða útgöngu Breta úr ESB yfirgefur landið einnig tollabandalag sambandsins komi til útgöngu án samnings sem þýðir að bresk fyrirtæki myndu þurfa að fylla inn tollaskýrslur, breyta merkingum á matvörum auk þess sem vottanir frá heilbrigðisyfirvöldum þyrfti að fá til þess að flytja út dýraafurðir. Herferð hefur verið hrundið af stað í Bretlandi til þess að upplýsa fyrirtæki um hvað þau þurfi að undirbúa komi til útgöngu.  Niðurstaða FT er sú að Bretland myndi skaðast hlutfallslega meira en Evrópusambandið á þessu sviði.

Samgöngur

Hvað samgöngur snertir er ljóst að flugfélög gætu haldið starfsemi áfram en þó í breyttri mynd. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt tvo löggerninga hvað þessi mál snertir sem gerir flugfélögum kleift að fljúga á milli tveggja punkta, þ.e.a.s. Bretlands og Evrópu, til mars 2020. Ýmsar takmarkanir eru þó enn fyrir hendi, en bresk flugfélög á borð við Ryanair og EasyJet, mættu t.d. ekki fljúga áfram frá einu Evrópulandi til annars. Þá þyrftu bresk flugfélög einnig að uppfylla þær kröfur sem Evrópusambandið gerir um að vera í meirihlutaeigu aðila innan Evrópusambandsins, til þess að geta flogið frjálst á milli staða í Evrópu.

Fiskveiðar

Hvað varðar fiskveiðar þýðir útganga Breta án samnings úr Evrópusambandinu að landið verður ekki lengur með hlutdeild að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, sem þýðir að evrópsk skip munu ekki lengur fá aðgang að breskum miðum. Þar sem evrópsk skip veiða töluvert meira á breskum miðum en bresk skip gæti Evrópusambandið þurft að bera hitann og þungann í þeim efnum. Samkvæmt Evrópusambandinu er verðmæti afla evrópskra fiskveiðiskipa á breskum miðum metið á 585 milljónir evra þar sem Belgar standa hvað verst komi til útgöngu en 50% af heildarafla þeirra er háður Bretum. Niðurstaða FT leiðir í ljós að ESB tapi meira á útgöngu Breta án samnings hvað fiskveiðar snertir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK