„Leiðin ætti að liggja upp á við“

Boeing 737 MAX-8 þota Icelandair á leið upp á við.
Boeing 737 MAX-8 þota Icelandair á leið upp á við. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að markaðurinn hafi smá áhyggjur af því að félagið þurfi að fara aftur í hlutafjáraukningu ef það heldur áfram að ganga svona illa en salan á hótelunum hjálpaði hvað það varðar svo það er ekki endilega von á því að það þurfi,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, í samtali við mbl.is um stöðu Icelandair Group.

Icelanda­ir tapaði um 89,4 millj­ón­um Banda­ríkja­dala, um 11 millj­örðum króna, á fyrstu sex mánuðum árs­ins. Eykst tap fé­lags­ins frá sama tíma­bili í fyrra því um nærri 50%.

Tapið vegna kyrrsetningar MAX-flugvéla Icelandair er talið vera 140 milljónir dollara eða um 17 milljarðar króna.

Mögulega trúverðugleikavandamál vegna MAX-áhrifa

„Það er augljóst að markaðurinn var ekki að taka neitt voðalega vel í þetta uppgjör,“ segir Sveinn, en gengi hlutabréfa í Icelandair lækkaði um á tíunda prósent í Kauphöllinni í gær.

„Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að tekjurnar á öðrum ársfjórðungi voru heldur lægri en menn bjuggust við. Síðan var áætlun félagsins um kostnað vegna MAX-áhrifanna kannski hærra tala en menn voru búnir að reikna sig inn á,“ bætir Sveinn við.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er þó jákvætt, ef horft er framhjá kostnaði við kyrrsetningu flugvéla Icelandair, hvernig reksturinn verður á árinu miðað við síðasta ár, segir Sveinn. „Á móti kemur að kannski er eitthvað trúverðugleikavandamál varðandi hvort þessi tala [17 milljarðar dollara vegna MAX-áhrifa] sé í rauninni rétt og hvort það sé virkilega einhver möguleiki að sækja bætur fyrir allri þessari upphæð til Boeing.“

Viss um að stjórnendur taki góðar ákvarðanir

Ari Freyr Hermannsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, er sammála Sveini um að frammistaða félagsins sé jákvæð ef litið er framhjá kostnaði vegna kyrrsetningar MAX-flugvélanna.

„Svona heilt yfir, ef við tökum MAX-áhrifin út, þá er þetta jákvæð frammistaða hjá félaginu að geta lækkað kostnað á ýmsum stöðum og hagrætt. Það eru jákvæð teikn að undirliggjandi rekstur er að batna,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann er viss um að þegar þau mál leysast og félagið geti farið að einbeita sér að eðlilegum rekstri í stað þess að eiga við ófyrirsjáanleg áföll muni félagið gera góða hluti. „Ég hef trú á því að þessir stjórnendur taki eins góðar ákvarðanir fyrir félagið og hægt er,“ segir Sveinn og bætir við:

„Það hefur allt verið á móti þeim og þau hafa barist vel á móti straumnum. Leiðin ætti að liggja upp á við að því gefnu að ekkert óvænt komi upp á hjá félaginu á næstunni og að flotamálin skýrist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK