Búið í haginn fyrir komu Kínverjanna

Kínversk fjölskylda við Gullfoss. Reikna má með að komum Kínverja …
Kínversk fjölskylda við Gullfoss. Reikna má með að komum Kínverja til Íslands haldi áfram að fjölga hratt. Ómar Óskarsson

Eitt er að geta tekið við greiðslu í gegnum kínversk forrit á borð við Alipay og WeChat, og annað að sinna þörfum kínverskra gesta af fagmennsku og nýta kínverska samfélagsmiðla til að ná til þeirra.

Íslenska sprotafyrirtækið Splitti hjálpar íslenskum fyrirtækjum að gera einmit þetta og þannig laða til sín kínverska ferðamenn. Sturla Þórhallsson, framkvæmdastjóri Splittis, segir geta komið sér mjög vel fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi að ná athygli Kínverja enda eyðsluglaðari en flestir aðrir hópar ferðamanna og útlit fyrir að komum þeirra til Íslands muni fjölga hratt á næstu árum.

Splitti varð til í kringum þá hugmynd að auðvelda skipuleggjendum ferða að taka við greiðslum í gegnum WeChat og Alipay en Sturla og Hannes Baldursson meðstofnandi hans komu fljótlega auga á hversu öflug markaðstæki þessi forrit – og kínverskir samfélagsmiðlar almennt – geta verið. Vandinn er sá að þótt íslensk fyrirtæki kunni á Twitter og Facebook eru t.d. Sina Weibo og Baidu – kínversk ígildi Twitter og Google – þeim algjörlega framandi. Þess utan er kínverskukunnáttunni sjaldan fyrir að fara hjá starfsfólki dæmigerðs íslensks veitinga- eða gististaðar.

Kínverjar svara í símann

Til viðbótar við að smíða greiðslumiðlun sem tekur jafnt við Visa, Mastercard, Alipay og WeChat varð því úr hjá Splitti að bjóða líka upp á aðstoð við markaðsstarf á kínverskum samfélagsmiðlum. Bæði er kínverskumælandi starfsmaður hjá Splitti, og að auki á fyrirtækið í samstarfi við kínverskt þjónustuver í Hollandi þar sem þjónustuliprir og sérþjálfaðir kínverskumælandi starfsmenn eru til taks allan sólarhringinn, til að svara símtölum og fyrirspurnum sem berast á samfélagsmiðlum. „Við tökum það markaðsefni sem fyrirtæki eru þegar að nota, aðlögum það og þýðum yfir á kínversku,“ útskýrir Sturla og segir mikla áherslu lagða á að kínverska markaðsefnið sé nákvæmt og skýrt því stundum hafi borið á gloppum og misræmi í upplýsingagjöf íslenskra fyrirtækja á kínversku.

Sturla Þórhallsson og Hannes Baldursson, stofnendur Splittis.
Sturla Þórhallsson og Hannes Baldursson, stofnendur Splittis.

Forvitinilegt verður að sjá hvernig hegðun kínverskra ferðamanna mun þróast á komandi árum. Sturla segir að reynsla landa eins og Finnlands bendi til að trúa megi spám um að árið 2020 muni á bilinu 200-250 þús. Kínverjar sækja Ísland heim. Er skemmst að minnast frétta um að kínverska flugfélagið Tianjin hefði sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli næsta vetur, þrisvar sinnum í viku, fyrir flug frá Wuhan með millilendingu í Helsinki.

Þá má nú þegar sjá merki þess að Kínverjar séu orðnir sjálfstæðari í ferðalögum sínum, og skoði heiminn á eigin vegum frekar en í hópferðum. Sturla væntir þess að hinn almenni Kínverji muni í vaxandi mæli skipuleggja ferðir sínar sjálfur, sem geri það enn brýnna fyrir íslensk hótel, veitingastaði og þjónustufyrirtæki að vera sýnileg á kínverska netinu.

Flinkir leiðsögumenn til taks

Bætt þjónusta og upplýsingagjöf ætti líka að draga úr þeim núningi sem stundum hefur orðið þegar Kínverjinn skoðar landið. Segir Sturla að fyrir ekki svo mörgum árum hafi farið nokkuð slæmt orð af kínverskum gestum, sum hótel síður viljað taka við hópum frá Kína og umtalað að Kínverjar á bílaleigubílum ættu fullt í fangi með að aka varlega. „En þetta er að lagast hratt, einmitt vegna þess að upplýsingagjöf og þjónusta hefur batnað, og þessum gestum verið kennt á siði heimamanna.“

Næsta skref hjá Splitti verður einmitt að safna saman á einn stað kínverskumælandi leiðsögumönnum með öll tilskilin réttindi. „Við vitum um tilfelli þar sem reynslulitlir kínverskir umsjónarmenn hafa fylgt hópum hingað til lands, og ekki verið starfi sínu vaxnir svo að hóparnir hafa snúið óánægðir heim. Langar okkur að tengja saman innlend og erlend ferðaþjónustufyrirtæki við þá 28 kínverskumælandi leiðsögumenn sem finna má hér á landi og þannig bæði skapa þeim atvinnu og hækka staðalinn á þjónustu við kínverska hópa.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK