43 sagt upp hjá Íslandspósti

Stöðugildum hjá Íslandspósti fækkar um 80 á árinu. 43 var …
Stöðugildum hjá Íslandspósti fækkar um 80 á árinu. 43 var sagt upp í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

43 starfsmönnum var í dag sagt upp hjá Íslandspósti. Alls fækkar stöðugildum hjá fyrirtækinu um 80 á árinu 2019. Vinnumálastofnun og hlutaðeigandi stéttarfélögum hefur verið gert viðvart um hópuppsögnina.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandspósti að uppsagnirnar séu liður í nauðsynlegum hagræðingaraðgerðum sem miða að því að tryggja sjálfbæran rekstur fyrirtækisins og nútímavæðingu starfseminnar.

Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð. Íslandspóstur mun bjóða öllum sem missa vinnuna ráðgjöf sérfræðinga við atvinnuleit og sálfræðiaðstoð. Þeir starfsmenn sem komnir eru nálægt starfslokaaldri fá einnig sérstaka ráðgjöf. 

 „Uppsagnirnar í dag eru sársaukafullar og taka á alla, en eru því miður óumflýjanlegar til að hægt sé að ná settum markmiðum í rekstri fyrirtækisins. Við þökkum starfsfólkinu fyrir þeirra störf og munum leggja okkur fram við að aðstoða það við næstu skref,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Íslandspósts, í tilkynningu. 

Samhliða uppsögnunum verður ráðist í skipulagsbreytingar sem eiga að tryggja að þjónusta Íslandspósts skerðist ekki. Þær fela í sér að deildir verða sameinaðar eða lagðar niður, auk þess sem áfram verður unnið að einföldun á skipuriti Íslandspósts. 

Stöðugildi fyrir uppsagnir voru 666 og er því um að ræða 12% fækkun. Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar leiði til um 500 milljóna króna hagræðingar í rekstri Íslandspósts á ársgrundvelli. Uppsagnarfrestur starfsfólksins sem sagt var upp í dag er þrír til sex mánuðir og því mun hagræðingin byrja að koma fram í byrjun næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK