Tók með sér iðnaðarleyndarmál um sjálfkeyrandi bíla frá Google til Uber

Anthony Levandowski, háttsettur verkfræðingur í þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Uber …
Anthony Levandowski, háttsettur verkfræðingur í þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Uber hefur verið ákærður fyrir að stela iðnaðarleyndarmálum frá fyrrverandi vinnuveitendum sínum hjá Google. AFP

Fyrrverandi verkfræðingur hjá tæknirisanum Google var í dag ákærður í Bandaríkjunum fyrir að stela iðnaðarleyndarmálum um sjálfkeyrandi bíla frá fyrrverandi vinnuveitendum sínum og fara með þau á sinn nýja vinnustað, Uber.

Verkfræðingurinn, Anthony Levandowski, gæti verið dæmdur í allt að 10 ára fangelsi og til greiðslu 250.000 dala sektar fyrir meinta háttsemi sína.

„Við höfum öll rétt til þess að skipta um vinnu, en enginn hefur rétt til þess að fylla vasa sína á leiðinni út um dyrnar,“ sagði David Anderson saksóknari í tilkynningu um ákæruna, sem er alls í 33 liðum.

„Þjófnaður er ekki nýsköpun,“ sagði saksóknarinn einnig.

Levandowski hafði starfað hjá Waymo, systurfyrirtæki Google sem fæst við að hanna sjálfkeyrandi bíla, allt frá því að því verkefni var hleypt af stokkunum árið 2009.

Þar veitti hann svokölluðu LiDAR-teymi forstöðu og fékkst við að hanna kerfið sem nemur umhverfi sjálfkeyrandi bíla, svo að þeir aki nú ekki yfir allt og alla. Hann hætti störfum hjá Google árið 2016 og stofnaði sprotafyrirtækið Otto, sem síðar var keypt af Uber.

Waymo hefur þegar farið í mál við Uber út af meintum þjófnaði iðnaðarleyndarmála og náðu fyrirtækin sáttum í málinu á síðasta ári. Nú þarf verkfræðingurinn hins vegar að svara persónulega til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK