Mismunandi skilaboð frá stjórnendum fasteignafélaga

Hafnartorg, sem er í eigu fasteignafélagsins Regins, hefur sett sterkan …
Hafnartorg, sem er í eigu fasteignafélagsins Regins, hefur sett sterkan svip á miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samanlagður hagnaður fasteignafélaganna Regins, Reita og Eikar jókst um 100% á fyrstu sex mánuðum þessa árs séu þeir bornir saman við sama tímabil í fyrra. Samanlagður hagnaður eftir skatt nam 5,5 milljörðum króna samanborið við 2,8 milljarða króna í fyrra. Hagnaður Regins eftir skatt nam 2,1 milljarði króna, Reita 1,9 og Eikar 1,5.

Matsbreytingar fjárfestingareigna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem endurspegla mat félagsins á virði eignasafnsins, voru hjá félögunum þremur jákvæðar sem nemur 5,3 milljörðum króna, sem er um 332% aukning á milli ára. Nam matsbreytingin 2,2 milljörðum hjá Regin, 1,8 milljörðum hjá Reitum og 1,3 milljörðum hjá Eik.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst um 13,12% á fyrstu sex mánuðum ársins og nam samanlagt um 9,8 milljörðum króna miðað við 8,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Nam rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu 3,2 milljörðum, Reita 3,9 og Eikar 2,7 milljörðum króna.

Rekstrartekjur félaganna á fyrstu sex mánuðum ársins námu 14,9 milljörðum króna og jukust þær um tæp 12% en þær voru 13,3 milljarðar í fyrra. Rekstrartekjur Regins námu 4,8 milljörðum króna, Reita 5,8 milljörðum og Eikar 4,2 milljörðum króna.

Óheppilegt fyrirkomulag

Að mati Þorsteins Andra Haraldssonar, sérfræðings í greiningardeild Arion banka, var rekstur fasteignafélaganna á fyrri árshelmingi í samræmi við væntingar. Þó hafi fasteignagjöld hækkað mikið í ár og aldrei verið hærri sem hlutfall af leigutekjum. „Við höfum bent á það að fyrirkomulag fasteignagjalda atvinnuhúsnæðis hafi að okkar mati verið óheppilegt í kjölfar breytingar á aðferðafræði fasteignamatsins árið 2015 og leitt til verulegrar hækkunar á húsnæðiskostnaði fyrirtækja,“ segir Þorsteinn Andri.

Í uppgjörum félaganna vöktu rekstrarhorfur félaganna athygli. Eik var við neðri 1% á EBITDA-spá félagsins, og þá voru leigutekjur Regins um 200 milljónum króna undir neðri mörkum tekjuáætlunar sem birt var í byrjun árs. Reitir sendu aftur á móti frá sér endurskoðaðar rekstrarhorfur vegna ársins 2019 í ágústmánuði fyrir hálfsársuppgjörið þar sem tekjur voru færðar niður um 200 milljónir króna og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu samtals niður um 300 milljónir króna þar sem um 100 milljónum var bætt við hugsanlega niðurfærslu viðskiptakrafna.

Búa sig undir stærra högg

Að mati Þorsteins Andra hafa þó skilaboð stjórnenda félaganna verið nokkuð ólík.

„Reitir sendu frá sér afkomuviðvörun þar sem félagið býst við því að fækkun ferðamanna og þyngri rekstrarhorfur í mörgum atvinnugreinum muni hafa neikvæð áhrif á útleigu og innheimtu viðskiptakrafna. Þannig býst félagið við auknum vanskilum eftir því sem líða tekur á árið,“ segir Þorsteinn og heldur áfram.

„Reginn færði einnig niður sínar afkomuhorfur þó á öðrum forsendum en Reitir. Hvorki stjórnendur Regins né Eikar hafa endurómað skilaboð Reita um að vanskil séu að aukast verulega í sínum rekstri. Þeir tóku hins vegar undir það að vissar atvinnugreinar ættu undir högg að sækja, eins og veitinga- og hótelrekstur. Það virðist því vera að Reitir séu að búa sig undir stærra högg en hin tvö félögin enn sem komið er,“ segir Þorsteinn Andri.

Sjá nánar í Morgunblaðinu 31. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK