Jónína S. Lárusdóttir hættir störfum hjá Arion banka

Jónína S. Lárusdóttir.
Jónína S. Lárusdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Jónína S. Lárusdóttir, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá bankanum. Jónína hefur verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og setið í framkvæmdastjórn bankans í um níu ár eða frá nóvember 2010.

Hún mun láta af störfum föstudaginn 13. september, að því er bankinn greinir frá í tilkynningu.

„Það hefur verið mikill fengur fyrir Arion banka að hafa notið reynslu og þekkingar Jónínu síðastliðin níu ár. Ég vil þakka henni góð störf í þágu bankans og óska henni velfarnaðar í framtíðinni,“ er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, í tilkynningunni.

Jónína hefur auk starfa sinna hjá Arion banka setið í stjórn Valitor frá árinu 2014. Jónína var áður ráðuneytisstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu frá 2007 til 2010 og á árunum 2004 til 2007 var hún skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Jónína starfaði  í viðskiptaráðuneytinu sem deildarsérfræðingur á skrifstofu fjármagnsmarkaðar frá 2000 til 2004. 

Á árunum 1996 til 2000 starfaði hún sem lögmaður hjá A&P lögmönnum en einnig hefur Jónína starfað sem stundakennari í mörgum háskólum meðal annars hjá lagadeild Háskóla Íslands. Jónína hefur setið í og stýrt fjölmörgum nefndum, m.a. á vegum forsætisráðuneytisins en einnig var hún formaður Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á árunum 2003 og 2004.

Jónína lauk meistaraprófi frá London School of Economics and Political Science árið 2010. Hún brautskráðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi ári síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK