Rafmagnsverð til Elkem ekki ríkisaðstoð

Elkem á Grundartanga.
Elkem á Grundartanga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að orkuverð sem Elkem Ísland greiðir til Landsvirkjunar og var ákveðið með gerðardómi fyrr á þessu ári feli ekki í sér ríkisaðstoð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.

Gerðardómurinn komst að niðurstöðu um verð á raforku sem Landsvirkjun selur Elkem í maí á þessu ári, en hið nýja orkuverð tók gildi 1. apríl.

ESA skoðaði samninginn samkvæmt reglum um ríkisaðstoð en auðlindir í eigu ríkisins mega ekki skekkja samkeppni með því að gefa ákveðnum fyrirtækjum forskot. Niðurstaða þeirrar skoðunar er að ákvörðun gerðardómsins hafi ekki veitt Elkem slíkt forskot. „Orkuverðið var ákvarðað af óháðum gerðardómi skipuðum sérfræðingum sem byggðu ákvörðunina á skýrum og hlutlægum breytum sem endurspegluðu markaðsskilmála,“ segir í tilkynningunni.

Elkem og Landsvirkjun gerðu fyrst langtímaorkusamning árið 1975. Árið 2007 var svo samið um að heimilt væri að vísa ágreiningi um orkuverð í framlengdum samningi til gerðardóms. Árið 2017 virkjaði Elkem það ákvæði samningsins og sem fyrr segir komst gerðardómurinn að niðurstöðu fyrr á þessu ári.

Ekki er greint frá upphæð orkuverðsins í gerðardóminum eða í ákvörðun ESA. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur sagt að fyrirtækið hafi viljað fá hærra verð. Komu ummæli hans í kjölfar þess að verkalýðsleiðtoginn Vilhjálmur Birgisson sagði að hækk­un á raf­orku­verði til Elkem Ísland á Grund­ar­tanga „ógnaði rekstr­ar­for­send­um Elkem gríðarlega“. Vísaði Hörður því á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK