Nonnabita í Hafnarstræti lokað eftir 27 ár

Nonnabiti í Hafnarstræti.
Nonnabiti í Hafnarstræti. Mynd/ja.is

Nonnabiti hefur lokað sölustað sínum í Hafnarstræti eftir 27 ára samfellda sögu við þessa götu í miðbæ Reykjavíkur. Jón Guðnason, eigandi staðarins, segir í samtali við mbl.is að ástæða þess að hann lokar staðnum núna sé þróun miðbæjarins sem miði að því að flæma burt alla starfsemi. Segir hann að þá hafi byggingarframkvæmdir í nágrenninu lokað fyrir aðgengi síðustu fjögur ár. Fyrirtækið mun áfram reka stað í Kópavogi.

Jón, eða Nonni eins og hann er alla jafna kallaður, enda ber staðurinn nafn hans, hefur staðið vaktina ásamt eiginkonu sinni og fjölskyldu undanfarin 27 ár niðri í miðbænum og í raun þekkja nokkrar kynslóðir miðbæinn ekki án staðarins. Þar hafa verið seldir samlokubátar sem skemmtanaþyrstir gestir miðbæjarins hafa jafnan getað keypt langt fram á nótt. Nú er komið að leiðarlokum að sögn Nonna, en hann kveður miðbæinn þó með ákveðnum trega.

Nonnabiti hóf starfsemi í Hafnarstræti 18, en það hús hefur nú verið rifið. Því næst var staðurinn í Hafnarstærti 11 í þrjú ár áður en hann færði sig í núverandi eigið húsnæði við Hafnarstræti 9. Þar var áður Ásgeir Davíðsson með Hafnarkrána. Nú hefur bæði eignin verið seld og staðnum lokað.

„Þetta hefur gengið upp og niður eins og allur annar rekstur, ekki alltaf verið dans á rósum,“ segir Nonni, en bætir við að yfirleitt hafi reksturinn þó gengið vel og það sé ekki síst því að þakka að hann hafi verið heppinn með starfsfólk.

Nonni hefur sjálfur staðið næturvaktina mjög reglulega langt fram á nótt. Spurður hvort hann sé ekki sáttur með að þeim kafla sé nú lokið segir hann að það sé smá léttir að sleppa nætursölunni. Hins vegar sé það jafnan skemmtilegur tími og mikið af hressum viðskiptavinum sem séu úti að skemmta sér. „Þannig að það er smá tregi líka,“ segir hann. „En maður er orðinn gamall maður. Ekki lengur 40 og eitthvað, heldur 60 og eitthvað.“

Spurður út í ástæður þess að nú sé verið að loka staðnum í Hafnarstræti er Nonni mjög skýr og segir að það sé þróun miðbæjarins. „Það er verið að flæma alla starfsemi í burtu. Miðbænum var svo gott sem lokað fyrir nokkrum árum og svo bættust byggingarframkvæmdirnar við,“ segir hann. Spurður hvort það hafi haft áhrif á söluna segir Nonni það augljóst að þegar færra fólk komist í miðbæinn fari salan niður.

Nefnir hann sem dæmi að núna í dag, rétt áður en mbl.is náði tali af honum, hafi hann verið á leið að ganga frá, en þurft að keyra 4-5 hringi um bæinn til að finna stæði. „Þetta eru viðvarandi vandræði,“ segir hann og hafi vissulega áhrif á söluna.

Nonni segir að ekki sé í pípunum að setjast í helgan stein strax, heldur muni hann áfram vinna við staðinn í Kópavogi. Þar sé nú verið að flytja staðinn í húsnæðið við hlið núverandi staðar og koma sér fyrir í eigin húsnæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK