„Ófyrirgefanlegt“ að endurtaka mistökin fyrir hrun

Gylfi var gestur á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd …
Gylfi var gestur á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar á fyrri hluta árs 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sú kynslóð sem lendir í  fjármálakreppu lærir af reynslunni og gerir ekki sömu mistök, það er kynslóðin sem kemur á eftir sem gerir þau,“ sagði Gylfi Zoëga, prófessor og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Hann sagði að það mætti ekki gerast aftur að regluverk í fjármálageiranum hvetji til hegðunar sem leiðir til skamms tíma hagnaðar einstaklinga og fyrirtækja en sé á skjön við hagsmuni þjóðarbúsins.

Beðinn um að útskýra þetta nánar í viðtali við mbl.is eftir fund tók Gylfi þrjú dæmi um aðstæður sem voru uppi fyrir efnahagshrunið árið 2008 og áttu þátt í þeim hremmingum sem Ísland og fleiri lönd líkt og Spánn, Grikkland og jafnvel Bandaríkin lentu í þá.

Hagnaður til skamms tíma getur skapað hættu

„Í þessum löndum voru stofnanir og reglur á fjármálamarkaði með þeim hætti að einstaklingar, fjölskyldur og fjármálafyrirtæki sem og önnur fyrirtæki gátu hagnast á að gera hluti sem stefndu þjóðarbúinu í hættu,“ útskýrði Gylfi og hélt áfram:

„Sem dæmi voru 80% af skuldum fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum, jafnvel fyrirtækja sem voru einungis með tekjur í krónum. Stór hluti skulda sveitarfélaga var í erlendum gjaldmiðlum og heimilin notuðu erlend lán til að fjármagna bílakaup.“

Þetta hafi leitt til skamms tíma hagnaðar fyrir alla en skapað „stórkostlega hættu“ þegar krónan gaf eftir og höfuðstóll þessara lána stökkbreyttist í krónum.

„Annað dæmi er þegar þú leyfir útlánum bankanna að vaxa eins hratt og gerðist, 30 til 40% á ári, þá er við því að búast að gæði útlánasafna verði minni og svona mikill útlánavöxtur hefur þjóðhagsleg áhrif sem eru ekki æskileg þó að hver banki hafi grætt til skamms tíma,“ bætti hann við og tók þriðja dæmið:

„Erlendum sparnaði var leyft að koma inn í krónuna til þess að fá vaxtamuninn og það voru 600 milljarðar haustið 2008. Þetta var sparnaður útlendinga, kvikt fjármagn, sem kom inn í krónuna til þess að fá vaxtamuninn en gat svo farið út á örskömmum tíma og valdið því að krónan hríðfélli.“

Má ekki gerast aftur

Hann bætti því við að vissulega væru ákveðnir aðilar sem högnuðust á slíkum viðskiptum, sér í lagi þeir útlendingar sem fengju vaxtamuninn sem og fyrirtækin sem þjónusta þá aðila, en viðskiptin gætu verið stórhættuleg fyrir þjóðarbúið þar sem upphæðirnar gætu orðið svo háar að við misstum stjórn á okkar eigin peningakerfi.

Það mætti ekki gerast aftur að fjármálastofnanir, fyrirtæki og heimili byggju við reglur sem hvettu þessa aðila til að gera hluti sem kæmu þeim til gagns til skamms tíma en settu þjóðarbúið í hættu. „Það þarf að hafa regluverkið þannig að við höfum hvata til þess að gera það sem er líka gott fyrir landið,“ bætti hann við.

„Þetta er í lagi núna“

„Núna erum við með tæki til að hamla þessum vaxtamunaviðskiptum. Þau eiga sér eiginlega ekki stað, nema aðeins á hlutabréfamarkaði sem er í lagi. Þá eru hömlur á því að óvarðir aðilar taki lán í öðrum gjaldmiðlum og svo eru eiginfjárkröfur á bankanna svo þeir fari ekki að auka útlánin of hratt,“ sagði hann en gerði fyrirvara:

„Svo þetta er í lagi núna en það sem ég er að segja er að við verðum að passa núna þegar bankarnir verða einkavæddir að það sé ekki slakað á þessum reglum svo við lendum ekki aftur í því sama.“

„Það er stöðugur áróður fyrir þessum breytingum“

Spurður hvort að hann hefði áhyggjur af því að slakað yrði á regluverkinu þannig að mistökin sem voru gerð fyrir hrun yrðu endurtekin á næstu árum sagði hann að það væri nú þegar verið að þrýsta á slíkar breytingar.

„Einn bankastjóri stórs banka var í viðtali um síðustu helgi og sagði að það væri lykilatriði að lækka eiginfjárkröfur á bankanna. Því er stöðugt haldið fram af hagfræðingum bankanna að það eigi að hleypa inn þessu erlenda sparifé í vaxtamunaviðskipti því það sé æskilegt. Og núna þegar bankarnir fara að taka erlend lán á betri kjörum þá mun pressan myndast að fara lána í erlendum myntum,“ sagði Gylfi og bætti við að lokum:

„Það er stöðugur áróður má segja fyrir þessum breytingum og það er kannski hægt að fyrirgefa að þetta gerðist einu sinni þegar landið var opnað fyrir umheiminum og reglurnar voru vitlausar svo allt fór eins og það fór. En það er ófyrirgefanlegt að endurtaka það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK