„Við erum í lagi en heimurinn ekki“

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar.
Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er mjög dýrt land sem byggir hagvöxt sinn á atvinnugrein sem krefst ódýrs vinnuafls. Það mun koma í ljós í lok árs hvort hin veiku fyrirtæki í ferðaþjónustunni lifa af. Þetta sagði Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Gylfi var gestur á fundinum ásamt Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra og til umræðu var skýrsla peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir fyrri hluta árs 2019. Fundurinn hófst með ávarpi þeirra Ásgeirs og Gylfa.

 Gylfi fór yfir orsakir og afleiðingar þeirrar niðursveiflu sem íslenska hagkerfið er nú í sem og stöðuna í efnahagsmálum erlendra stórríkja á borð við Bandaríkin og Þýskaland.

Má ekki veðja þjóðarbúinu á að fá bætur frá Boeing

Hann var ekki jafn bjartsýnn og Ásgeir á efnahagshorfur á Íslandi en sagði stöðuna þó góða. Við værum vel undirbúin undir samdrátt, staða gjaldeyrismála væri mjög jákvæð og við gætum lækkað vexti eins og þyrfti til að byrja næstu uppsveiflu. Orsök niðursveiflu væri fækkun ferðamanna og hana mætti meðal annars rekja til launakostnaðar.

 „Launakostnaður er of hár, þetta á við um flugfélögin. Hátt launahlutfall veldur því að þetta land er mjög dýrt og það kemur í ljós núna í nóvember hvort hin veiku lifa af,“ sagði hann en bætti við að efnahagshremmingar ferðaþjónustunnar væru hættulegar og það þyrfti að fylgjast með Icelandair.

„Hvenær verður eigið fé þar komið á hættulegt stig? Það má ekki veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar bætur frá Boeing,“ útskýrði hann.

Tímaspursmál hvenær næsta kreppa kemur

Gylfi tók fram að þrátt fyrir almennt jákvæðar horfur hér á landi væri samdráttur í uppsiglingu erlendis og að ástandið í heiminum væri „óeðlilegt“ og bætti því við að það yrði athyglisvert að sjá hvernig fjármálamarkaðurinn erlendis myndi bregðast við næstu kreppu þegar hún kæmi. 

Hann sagði vexti víðast hvar alltof lága og ef og þegar kreppa kæmi þá væru ekki til nein tæki til að bregðast við. Þetta ætti við um Bandaríkin, ríkisstjórnir og seðlabanka Evrópu sem og Bretland. Hann tók fram að þetta myndi hafa áhrif hér á landi en þó ekki valda stórkostlegum áföllum eins og árið 2008.

„Við erum í lagi en heimurinn ekki,“ sagði hann og hlaut lof frá viðstöddum fyrir skemmtilegt orðalag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, grínaðist með að þetta væri einmitt mottó Miðflokksins.

Nefndarmenn tortryggnir gagnvart bjartsýni

Eftir ávörp þeirra Ásgeir og Gylfa fengu þeir spurningar frá nefndarmönnum efnahags- og viðskiptanefndar og voru þær nokkuð margar, langar og flóknar. Svo margar í raun að þegar fundinum var slitið höfðu ekki allir nefndarmenn fengið tækifæri til að spyrja gestina sinna spurninga.

Flestar spurninga nefndarmanna lutu að því hvort of mikillar bjartsýni gætti fyrir hagvexti og horfum í efnahagslífi á næsta ári.

Seðlabankastjóri tók vissulega undir þær áhyggjur og sagðist óttast að staðan væri of góð til að vera sönn í ljósi þess hve efnahagshorfur erlendis væru tvísýnar. Gylfi varaði við því að við gerðum aftur sömu mistök og fyrir efnahagshrunið 2008.

Þá tók Gylfi fram að síðustu mánuðir hefðu verið góðir þrátt fyrir niðursveiflu og að allir aðilar, stjórnvöld, vinnumarkaður og Seðlabankinn, hefðu róið í sömu átt og staðið saman í fyrsta skipti í langan tíma.

Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar.
Opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd um skýrslu peningastefnunefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK