Búast við 1.400 hótelherbergjum á næstu þremur árum

Meðal þeirra hótela sem eru í byggingu er nýja Marriott-hótelið …
Meðal þeirra hótela sem eru í byggingu er nýja Marriott-hótelið við hliðina á Hörpu. Töluvert fleiri hótel eru í byggingu víða á höfuðborgarsvæðinu og er búist við 1.400 nýjum hótelherbergjum á næstu þremur árum. mbl.is/​Hari

Samkvæmt áætlun Seðlabanka Íslands í ritinu Fjármálastöðugleiki munu 1.400 ný hótelherbergi bætast við á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur árum, en það er um fjórðungsfjölgun. Þetta kemur ofan á 81% aukningu gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu á síðustu níu árum, talið í fermetrum. Uppsafnaður vöxtur í öðrum flokkum atvinnuhúsnæðis hefur verið 5-11% á þessu tímabili.

Á sama tíma og mikill fjöldi hótela er í byggingu hefur erlendum ferðamönnum hins vegar fækkað verulega það sem af er ári, í kjölfar mikils samdráttar í framboði á flugsætum til og frá landinu. Samdráttinn má að mestu rekja til falls WOW air, en vandræði Icelandair með Boeing MAX-þotur sínar hefur einnig haft neikvæð áhrif á sætaframboð.

Erlendum brottfararfarþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um rúmlega 14% á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra en sætaframboð hefur á sama tíma dregist saman um tæplega 22%. Ef einungis er skoðað tímabilið frá lokum mars, eftir fall WOW Air, er samdrátturinn meiri eða tæplega 18% í brottförum og 28% í sætaframboði.

Fram kemur í ritinu að þessi aukning hótelherbergja sem áætluð er teljist mikil, en tvennt dragi þó úr líkum á yfirskoti í framboði gistirýma til skamms tíma. „Annars vegar er nýting hótelherbergja enn góð í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar hefur framboð heimagistingar dregist saman, sem stuðlar að aukinni eftirspurn eftir hótelherbergjum.“

Hins vegar verði spurn eftir ferðaþjónustu að aukast töluvert til lengri tíma litið eigi ekki að verða offramboð á gistirými á höfuðborgarsvæðinu, segir að lokum í samantekt Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK