Stærstu tækifærin liggja í Asíu

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. Eggert Jóhannesson

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, finnur enn miklar áskoranir í því að leiða fyrirtækið, tuttugu og þremur árum eftir að hann tók við starfinu. Á þeim tíma hefur starfsmannafjöldinn eitthundraðfaldast. Á komandi árum hyggst félagið ryðja sér stærri braut inn á Asíumarkað og í því skyni hyggst fyrirtækið m.a. leggja aukna áherslu á eigin sölu í stað þess að byggja á neti umboðssöluaðila um veröld víða.

Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur hefur keypt um þrjátíu fyrirtæki frá aldamótum í því skyni að styrkja undirstöður þess. Engin kaup hafa þó mótað fyrirtækið jafn mikið og þau sem ráðist var í aldamótaárið 2000. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar þá og nú, segir að jafnvel megi halda því fram að fyrirtækið væri ekki til í núverandi mynd ef ekki hefði lukkast að kaupa bandaríska fyrirtækið Flex-Foot fyrrnefnt ár. Röð tilviljana leiddi hins vegar til þess að af kaupunum varð.

„Ég vaknaði einn morguninn, það var mánudagur, og hugsaði með mér að ég þyrfti að heyra í forsvarsmönnum Flex-Foot og kanna hvort þeir væru opnir fyrir viðræðum. Ég sló á þráðinn hjá Maynard C. Carkhuff, forstjóra félagsins. Ég sagði honum að við værum með fulla vasa fjár og að við gætum sannað að við gætum fengið fjármagn til að slá fyrirtækjunum saman. Það kom löng þögn í símann. Hann sagði mér að bíða andartak og spurði svo hvort hann mætti setja mig í hátalarann. Þá var hann með tvo aðaleigendur fyrirtækisins hjá sér á skrifstofunni. Þeir voru að ganga frá sölu á fyrirtækinu sem átti að eiga sér stað á fimmtudegi.“

Jón náði að telja þá félagana á að doka við og það næsta sem hann gerði var að koma sér út á Keflavíkurflugvöll og náði þar í næstu vél til Bandaríkjanna.

„Þeir trúðu því ekki að við gætum keypt þá enda var Flex-Foot tvöfalt stærra félag en Össur. Söluræðan var þá sú að Össur myndi frekar renna inn í Flex-Foot og stjórnendur fyrirtækisins voru mjög hrifnir af þeirri hugmynd. Þeir vildu láta á þetta reyna en þeir voru efins um að við gætum borgað 75 milljónir dollara fyrir fyrirtækið. Það var tala sem ég hafði slengt beint fram, vitandi að það var of hátt verð, en það virkaði. Ég fékk Sigurð Einarsson hjá Kaupþingi til að fljúga út og hann ítrekaði að þeir myndu bakka viðskiptin upp.“

Hefði Jón hringt vestur um haf fjórum dögum síðar hefði ekkert orðið af kaupunum. Hann segir að þessi atburðarás sé líklega sú sem móti feril hans meira en nokkur önnur.

„Það er kannski ekki síst vegna þess að kaupin voru í algjörri andstöðu við allar kenningar um fyrirtækjarekstur, þ.e. að lítið fyrirtæki kaupi svo miklu stærri keppinaut. En þetta var líka talsvert mikil áhætta. Við veðjuðum í raun bara fyrirtækinu á þessi kaup. En við urðum að stíga þetta skref,“ segir Jón og hann viðurkennir að þetta hafi verið strembnir dagar. Það hafi verið í meira lagi stressandi að standa í slíkum stórræðum með ekki stærra fyrirtæki en raun var á þessum tíma.

Ekki hægt að byggja á einni vöru

Spurður út í af hverju Össur hafi þurft að stíga svo djarfmannlegt skref segir Jón að um aldamótin hafi Össur í raun aðeins verið með eina vöru í framleiðslu og sölu, þ.e. hina byltingarkenndu sílikonhulsu sem Össur Kristinsson stofnaði fyrirtækið á sínum tíma í kringum.

„Við gátum ekki lifað af með eina vöru og auk þess seldum við vöruna ekki beint heldur vorum með sölu- og dreifingaraðila á þeim mörkuðum sem við sóttum inn á. Þessu urðum við að breyta og það gerðist þarna. Og þegar við vorum búin að ganga frá þessum kaupum réðumst við einnig í kaup á Century XXII. Það voru ekki eins stór kaup en þau tryggðu að við vorum komin með heila vörulínu, þ.e. hulsu, hné og fót. Það skipti miklu máli,“ segir Jón þegar uppbygging fyrirtækisins er rakin.

En mikið vatn er runnið til sjávar síðan. Þegar Jón rifjar það upp telst honum til að hann hafi verið fertugasti og annar starfsmaður fyrirtækisins. Í dag eru þeir 4.000 og því hefur starfsmannafjöldinn eitthundraðfaldast frá árinu 1996 þegar hann kom þangað til starfa.

Og það eru fleiri þættir í uppbyggingarferlinu sem rifjast upp, m.a. í tengslum við kaupin á árinu 2000.

Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK