Íslenskt regluverk óskilvirkast

Frá blaðamannafundi í morgun þar sem Kristján og Þórdís kynntu …
Frá blaðamannafundi í morgun þar sem Kristján og Þórdís kynntu fyrirhugaðar aðgerðir og frumvörp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir aðgerðir sem snúa að því að afnema fjölda reglugerða löngu tímabærar. Hún segir ljóst að íslenskt eftirlitskerfi hafi lengi verið illskiljanlegt og að aðgerðirnar muni koma sér vel fyrir almenna borgara.

„Við fengum greiningu frá OECD sem sagði okkur að við séum með þyngsta eftirlitskerfi innan OECD. Það viljum við auðvitað ekki hafa. Það er alveg ljóst að við höfum ekki verið nægilega skilvirk í tiltekt og við höfum ekki verið nægilega dugleg að spyrja gagnrýnna spurninga þegar við setjum kröfur, við höfum ekki spurt hvort þetta sé besta útgáfa af regluverki sem hægt sé að finna. Við eigum greinilega margt eftir lært þar og við erum að demba okkur í það,“ segir Þórdís.

Hún og Kristján Þór Júlí­us­son­, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, kynntu í dag áætlanir um niðurfellingu yfir þúsund reglugerða og aðgerðir sem beinast að því að gera íslenskt regluverk aðgengilegt og auðskiljanlegt.

„Við vinnum þetta bæði saman og alveg hvort í sínu lagi. Mín fyrsta aðgerð var að fella brott konkret leyfi eins og iðnaðarleyfi, leyfi varðandi verslun og atvinnu, leyfi til sölu notaðra bifreiða og svo framvegis. Í þeim bandormi erum við sömuleiðis að fella brott 16 lagabálka,“ segir Þórdís.

Leyfi ofan á leyfi til að sækja um leyfi

 „Við erum að hætta leyfisskyldu þar sem kannski er nægilegt að vera með skráningarskyldu. Sums staðar erum við með leyfi þar sem við erum með leyfi ofan á leyfi, þar sem eini tilgangur leyfisins er að sækja um annað leyfi. Þarna þarf auðvitað að hreinsa til og það er löngu kominn tími á það,“ segir Kolbrún.

Ráðherrarnir með lögin sem þau vilja fella niður.
Ráðherrarnir með lögin sem þau vilja fella niður. Ljósmynd/Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

„Við erum að tala um að taka ferðaþjónustu- og byggingageirann í gegn frá A til Ö. Frá því ferðamaður lendir og þangað til hann fer heim. Frá því aðili sækir um byggingaleyfi og þangað til hann selur íbúðirnar. Allt það regluverk sem þar er undir, alla þá byrði, kröfur, gjöld, skatta og allt saman og erum í raun að greina hvar hægt sé að taka til í því. Það kemur í ljós að það eru mörg hundruð hindranir til staðar og nú er hópurinn að vinna að því hvað sé þar af ástæðu og hvað af því sé óþarfi.“

Auka við rafræna þjónustu

Hluti af aðgerðunum er til þess fallinn að efla samkeppnisumhverfi á Íslandi.

„Hluti þessa verkefnis er að fræða stjórnkerfið sem skrifar frumvörp og reglugerðir til þess að við smíðum í raun regluverk sem stuðlar að frekari samkeppni og er ekki samkeppnishamlandi í eðli sínu. Það kallar svolítið á breytta hugsun og ég bind miklar vonir við það verkefni. Það er aðeins lengri tíma verkefni.“

Spurð hvaða þýðingu þessar breytingar muni hafa fyrir hinn almenna borgara segir Þórdís:

„Þetta skiptir máli fyrir atvinnulíf sem er auðvitað fólk sem stundar atvinnurekstur, að það átti sig á því hvaða kröfur séu gerðar og það þurfi ekki að upplifa eins margar kröfur án þess að það komi niður á öryggi, þjónustu eða öðru slíku. Inn í þetta kemur auðvitað líka að borgarar geti í meira mæli sótt um leyfi eða skráð sig og annað slíkt rafrænt. Þá þurfa þeir ekki að prenta út pappíra og ganga á milli stofnana.“

Aðgerðirnar geta orðið til sparnaðar hjá ríkinu.

„Markmiðið með þessu er auðvitað að létta á hinu opinbera og skyldum atvinnulífsins gagnvart hinu opinbera þannig að það verði til einhver hagræðing hjá hinu opinbera og bætt þjónusta við borgarana. Það er grundvallarmarkmiðið að bæta þjónustu borgara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK