Til marks um viðvaningshátt

Ingvar Örn segir að stjórnsýslunni virðist hætta til að reyna …
Ingvar Örn segir að stjórnsýslunni virðist hætta til að reyna að vernda eigin hagsmuni frekar en að læra af gerðum mistökum.

Eins og Morgunblaðið fjallaði um í síðustu viku er Ísland komið á „gráan lista“ eftirlitsstofnunarinnar FATF, sem vaktar hversu vel þjóðir heims reyna að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samtökin höfðu bent á 51 ágalla í peningaþvættisvörnum Íslands og var búið að bregðast við nær öllum, en þrír stóðu þó enn út af að mati FATF.

Íslensk stjórnvöld vonast til að landið komist af gráa listanum von bráðar, jafnvel strax í febrúar á næsta ári, en Ingvar Örn Ingvarsson segir að skaðinn sé þegar skeður og hætta á að þetta mál dragi dilk á eftir sér. Ingvar er framkvæmdastjóri alþjóðlegu almannatengslastofunnar Cohn & Wolfe á Íslandi og minnir hann á að það sé langt síðan fyrst var vakið máls á því að herða þyrfti varnir Íslands gegn peningaþvætti. „Síðan 2004 hafa heyrst raddir sem bentu á að stjórnvöld og íslenska fjármála- og bankakerfið tæki þessi mál ekki nógu föstum tökum, að hluta til vegna þess að við værum of bláeyg, en mögulega líka vegna þess að það gat hentað ákveðnum hagsmunum.“

Nýjasta málið af mörgum

Stóra málið, að mati Ingvars, er ekki að Ísland lendi á gráa listanum um nokkurra mánaða skeið, heldur er það áfellisdómur yfir stjórnsýslunni að ekki hafi verið fyrir löngu búið að koma vörnum gegn peningaþvætti í gott horf. Segir hann FATF-málið bara það nýjasta í langri röð mála þar sem stjórnsýslan hefur brugðist. „Má þar nefna ófáa dóma Mannréttindadómstólsins varðandi t.d. málfrelsi blaðamanna og mál tengd hruninu, að ógleymdu landsréttarmálinu og tveimur seðlabankamálum, annars vegar gegn Samherja og hins vegar Ara Brynjólfssyni blaðamanni.“

Ingvar tekur fram að ekki sé hægt að setja allar stofnanir, ráðuneyti og sveitarfélög undir sama hatt, en allt of víða sé eins og kerfið einkennist af miklu skrifræði, óskýrri ábyrgð og skorti á vilja til að þjónusta og liðsinna borgurunum. „Frekar en að líta á sig sem þjóna almennings virðast margir embættismenn fyrst og fremst líta á það sem hlutverk sitt að þjóna hagsmunum hins opinbera og vernda hagsmuni sinnar stofnunar. Boltanum er kastað á milli ótal nefnda, eftirlitsaðila og ábyrgðaraðila og almenningi gerð þrautin þyngri að sækja rétt sinn. Frekar en að játa mistök og nýta alla gagnrýni og óþægileg mál sem tækifæri til að bæta sig reynir kerfið að verja sjálft sig.“

Óþægindi drifkraftur breytinga

Þessi vandi á sér eflaust margar orsakir. Þannig nefnir Ingvar að pólitískur óstöðugleiki undanfarinn áratug og tíðar stólabreytingar í ráðuneytum kunni að hafa veiklað stjórnunarvald ráðherra og þannig dregið úr aga í stjórnsýslunni. Svo kunni einfaldlega að vera um vinnustaðamenningar- og stjórnunarvanda að ræða. 

Bendir Ingvar á, með þetta í huga, að orðsporstjón Íslands vegna FATF-málsins snúi ekki endilega að því að heimurinn fari að líta á Ísland sem einhvers konar peningaþvættismiðstöð heldur frekar að fjárfestar og fyrirtæki líti svo á að vinnbrögðum og fagmennsku sé ábótavant hjá stjórnsýslunni. „Þeir sem stýra beinni erlendri fjárfestingu hjá stórum sjóðum eru með ýmsa landstengda áhættuþætti á sínum athugunarlistum og þar myndu FATF-mistökin klárlega vera flögguð sem vandamál og talin til marks um viðvaningshátt.“

Viðtalið við Ingvar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK