„Varnarsigur að skila þessari afkomu“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kveðst ánægður með ársfjórðungsuppgjör félagsins.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, kveðst ánægður með ársfjórðungsuppgjör félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum tiltölulega ánægð með árangurinn. Fjórðungurinn kom aðeins betur út en við áttum von á og það var eitt af því sem varð þess valdandi að við birtum afkomuviðvörun til hækkunar á sunnudaginn,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is um árshlutauppgjör félagsins.

„í ljósi krefjandi rekstraraðstæðna teljum við það varnarsigur að skila þessari afkomu, því að nettó neikvæð áhrif Max-kyrrsetningarinnar eru veruleg í ársfjórðungnum,“ bætir forstjórinn við.

Félagið hagnaðist um 7,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi og var lausafjárstaða þess 29,6 milljarðar króna í lok fjórðungsins, auk þess sem eiginfjárstaðan var 30%.

Bogi segist ekki geta sagt til um hvenær frekari frétta af MAX-8-vélum félagsins er að vænta. „Það er ekki í okkar höndum. Við tökum bara þær upplýsingar sem við fáum og stillum okkar áætlanir miðað við þær. Nú erum við að horfa til þess að vélarnar verði ekki í rekstri út febrúarmánuð.“

„Leiðakerfi okkar er mikil stýribreyta í því hversu margir farþegar koma til landsins og sölu- og markaðsstarf okkar er mjög mikilvægur þáttur í því,“ svarar forstjórinn er hann er spurður hvort félagið hafi áhyggjur af minni áhuga erlendra ferðamanna á að koma til Íslands. „Við höfum gríðarlega mikil áhrif á það hversu margir farþegar koma til landsins og við sjáum enn mikinn áhuga ferðamanna á Íslandi sem áfangastað.“

Ber virðingu fyrir samkeppnisaðilum

Bæði WAB og svokallað WOW2 hafa lýst því að þau hyggist hefja flug frá Íslandi. Spurður hvort Icelandair hafi einhverjar áhyggjur af vaxandi samkeppni á markaðnum segir hann félagið ávallt vera í mikill samkeppni.

„Við berum að sjálfsögðu virðingu fyrir allri samkeppni, ekki síst íslenskri samkeppni og íslenskum flugfélögum. En við erum í dag að keppa við mjög mörg af stærstu og bestu flugfélögum á Vesturlöndum og verðum að standa okkur í þeirri samkeppni. Ef við gerum það þá stöndum við okkur einnig í samkeppni gagnvart íslenskum flugfélögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK