Lauf sækir um einkaleyfi á nýrri tegund afturfjöðrunar

Ein af hugmyndum Laufs um nýja afturdempun.
Ein af hugmyndum Laufs um nýja afturdempun. Teikning/Lauf

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf cycling hefur sótt um einkaleyfi á þremur mismunandi gerðum af afturdempurum, en um er að ræða nýja hönnun sem byggir á fjaðurfjöðrun í stað hefðbundinna teleskópískra dempara sem algengastir eru á dempuðum hjólum. Byggir þetta að hluta til á svipaðri hugmyndafræði og framhjólagafflar fyrirtækisins, sem hafa markað því þó nokkra sérstöðu á hjólamarkaðinum undanfarin ár.

Samkvæmt einaleyfisumsókninni er jafnvel gert ráð fyrir að hægt verði í einni hönnuninni að stilla stífleika og sveigjanleika dempunarinnar meðan hjólað er. Þegar hefur verið gerð tilraunaútgáfa af hjóli með þessa dempun, en hún kemur í fyrsta lagi í almenna sölu eftir nokkur ár. Benedikt Skúlason, annar stofnandi og hönnuður Laufs, segir að afturdempararnir muni varla bæta neinu við þyngd hefðbundinna hjóla.

Lauf hóf upphaflega framleiðslu á framhjóladempurum með glertrefjafjöðrum sem voru hugsaðir fyrir fjallahjól. Fljótlega færðu þeir sig þó yfir í nýjan geira hjólreiða, svokallaðar malarhjólreiðar. Um er að ræða ákveðna blöndu af götuhjólum og fjallahjólum, þar sem dekk eru breiðari og oft meira lagt upp úr þægindum en á götuhjólum, en á móti er einnig horft til þess að hægt sé að fara langar vegalengdir á sem skemmstum tíma og þá er hrútastýri á flestum slíkum hjólum, líkt og á götuhjólum.

Malarhjólreiðar hafa farið ört vaxandi á undanförnum árum og hefur …
Malarhjólreiðar hafa farið ört vaxandi á undanförnum árum og hefur Lauf komið með framsæknum hætti inn á þann markað með dempurum og stýri sem dregur úr hristingi. Ljósmynd/Arnold

Áður en Lauf kom á markaðinn var ekki horft til þess að malarhjól væru með dempurum, enda er það bæði þyngra og slík fjöðrun getur dregið úr hraða hjólsins þegar farið er yfir gróft undirlag. Þar sem demparagaffall Laufs er hins vegar mun léttari en aðrir gafflar hefur hann náð nokkurri fótfestu meðal hjólreiðamanna í malargeiranum.

Þessi geiri hefur undanfarin ár verið sá mest vaxandi innan hjólreiða á heimsvísu og ákvað Lauf að færa sig frá því að vera bara framleiðandi á göfflum yfir í að framleiða heil hjól sem byggð voru í kringum framdemparagaffalinn. Fljótlega bættist svo við sérstakt stýri úr glertrefjum sem einnig var hugsað til að draga úr hristingi.

Með afturdemparanum má því segja að Lauf sé að bæta enn einum möguleikanum við dempun fyrir malahjólreiðarnar.

Hægt er að lesa nánar um þessa nýju hugmynd á vef Hjólafrétta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK