Samdráttur í ferðaþjónustu dregur úr þjónustujöfnuði

Verðmæti þjónustuútflutnings dregst saman um 26 milljarða á ársfjórðungnum, en …
Verðmæti þjónustuútflutnings dregst saman um 26 milljarða á ársfjórðungnum, en það er að mestu til komið vegna samdráttar í ferðaþjónustu og flugi. mbl.is/Hari

Heildartekjur af þjónustuútflutningi á þriðja fjórðungi þessa árs voru, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar 222,6 milljarðar króna. Heildarútgjöld vegna innfluttrar þjónustu voru 121,3 milljarðar króna. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 101,3 milljarða, en til samanburðar var þjónustujöfnuðurinn jákvæður um 123,4 milljarða króna á sama tíma í fyrra á gengi hvors árs fyrir sig.

Verðmæti þjónustuútflutnings lækkaði um 26 milljarða á þriðja ársfjórðungi milli ára, eða um 10,4% á gengi hvors árs fyrir sig. Helgast það meðal annars af því að tekjur af ferðaþjónustu og samgöngum dragast saman. Þannig lækkuðu útflutningstekjur af ferðaþjónustu um 4,6 milljarða, eða 3,7%, en tekjur af samgöngum og flutningum lækkuðu um 18,3 milljarða, eða 21,7%. Vegur þar þyngst samdráttur í tekjum af farþegaflutningum með flugi.

Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu nam 112,1 milljarði króna eða 50,3% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings á þriðja ársfjórðungi. Þar af var þjónustuútflutningur til Bretlands 23,6 milljarðar króna eða 10,6% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 67,8 milljörðum króna eða 30,5% af heildarþjónustuútflutningi.

Verðmæti þjónustuinnflutnings lækkaði um 3,9 milljarða á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra, eða um 3,1% á gengi hvors árs fyrir sig. Útgjöld vegna innfluttrar ferðaþjónustu námu 54,0 milljörðum króna og standa nánast í stað frá sama tíma árið áður. Verðmæti þjónustuinnflutnings frá Evrópu á þriðja ársfjórðungi 2019 nam 96,6 milljörðum króna eða 79,7% af heildarverðmæti þjónustuinnflutnings. Þar af var þjónustuinnflutningur frá Bretlandi 17,0 milljarðar króna eða 14,0% af heildarinnflutningi. Fyrir sama tímabil nam verðmæti þjónustuinnflutnings frá Bandaríkjunum 16,4 milljörðum króna eða 13,6% af heildarverðmæti innflutnings.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir septembermánuð var útflutt þjónusta áætluð 63,1 milljarður og innflutt þjónusta var áætluð 39,7 milljarðar. Þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 6,8 milljarða króna í september 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK