Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 3%. Þetta er í takt við væntingar markaðsaðila.
Samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur 0,2% á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er aðeins meiri vöxtur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvember en í meginatriðum hefur efnahagsþróunin það sem af er ári verið í samræmi við nóvemberspá bankans.
Verðbólga mældist 2,7% í nóvember og hefur, eins og undirliggjandi verðbólga, hjaðnað milli mánaða. Verðbólguhorfur hafa lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar og verðbólguvæntingar eru við markmið miðað við flesta mælikvarða. Taumhald peningastefnunnar hefur því lítið breyst milli funda.
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar, segir í ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 0,25 prósentustig á síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar. Nefndin hefur því lækkað stýrivexti bankans um samtals 1,5 prósentu síðan í maí. Allir nefndarmenn voru sammála ákvörðun nefndarinnar síðast og hefur verið samstaða meðal nefndarinnar á síðustu þremur fundum, segir í Hagsjá Landsbankans.
Greining Íslandsbanka var sammála greiningardeild Landsbankans um óbreytta vexti á aðventunni en útilokar ekki frekari lækkun vaxta á nýju ári.
Greiningardeild Arion banka tekur undir með mögulega vaxtalækkun á næsta ári. „Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ýjað að því að frekari vaxtalækkanir séu ekki í farvatninu, nema efnahagshorfur versni miðað við grunnspá bankans. Að okkar mati er Seðlabankinn full bjartsýnn á efnahagsbata næsta árs og vöxt fjárfestingar. Af þeim sökum teljum við að vaxtalækkun gæti litið dagsins ljós á næsta ári til að örva hagkerfið frekar,“ segir í nýrri hagspá bankans.