Skort stuðning við uppbyggingu kerfisins

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Fyrir það fyrsta vil ég hrósa bæði framgöngu Veðurstofunnar og öllum í stjórnstöð Almannavarna. Upplýsingar þaðan gerðu okkar kleift að virkja viðbragðsáætlun okkar í tæka tíð og gera ráðstafanir sem tryggðu tiltölulega truflanalausan rekstur hjá okkur.“

Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is um óveðrið sem gekk yfir landið í vikunni og afleiðingum þess. Það sem stendur hins vegar upp úr að hans mati er hversu mikil þörf er fyrir öflugt flutningskerfi raforku í landinu. Þá ekki síst það að landsbyggðin þurfi að búa við sambærilegt orkuöryggi og suðvesturhornið.

„Það er óásættanlegt ástand sem kom upp á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni. Veikleikar í flutningskerfinu stafa af því að nauðsynlegri uppbyggingu hefur ekki verið sinnt þó að þarfir samfélagsins hafi breyst mjög mikið. Frá því að byggðalínan var reist fyrir fjörutíu árum eru stórir hlutar landsins, sérstaklega á Norðurlandi, þar sem lítið hefur verið gert þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á þörfina,“ segir hann.

„Það er sláandi að hugsa til þess að Landsnet, sem var stofnað fyrir um 15 árum, hafi ekki fyrr en á þessu ári fengið heimild til að komast í sína fyrstu framkvæmd sem snýr að því að styrkja flutningskerfið. Það hefur ekki verið skortur á tillögum, rökum eða fjármagni til þess að ráðast í verkefnin. Leyfisveitingaferlið hefur ekki virkað.“

Brýn þörf fyrir öflugt flutningskerfi um allt land

Hörður segir að þó að skilningur hafi verið til staðar á því að styrkja þyrfti flutningskerfið hafi ekki verið nægjanlegur stuðningur við það. „Því hefur verið haldið fram að það þyrfti ekki að fara í slíka uppbyggingu og að áform um slíkt væru einungis fyrir stóriðju en það er alrangt. Það hefur sýnt sig að uppbygging fyrir stórnotendur hefur komið öllum almenningi til góða.“

Það sé þannig allra hagur að til staðar sé öflugt flutningskerfi í landinu. „Við getum búið við tímabil þar sem við erum ekki í framkvæmdum, kannski í 6, 8 eða 10 ár án þess að neitt alvarlegt gerist. En það þarf að hlusta á þá sérfræðinga sem greina hvað getur gerst ef ekki er hugað að uppbyggingu til lengri tíma eins og var ítrekað búið að gera bæði af hálfu Landsvirkjunar og Landsnets.“

Komi upp ástand eins og í vikunni þurfi flutningskerfið einfaldlega að vera í lagi. Þegar slíkt aftakaveður verði sé ekki óeðlilegt að truflanir eigi sér stað en það sé hins vegar óeðlilegt að umfangið verði eins og í þessu tilfelli. „Við erum að upplifa afleiðingu þess að ekki hefur verið fjárfest í kerfinu um árabil og ekki hefur verið skilningur á nægjanlega mörgum stöðum í samfélaginu á því að það þurfi að byggja upp til framtíðar. Þetta einfaldlega staðfestir brýna þörf á öflugu flutningskerfi um allt land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK