Niðurstaðan í fyrra „ákveðinn varnarsigur“

Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Erlendir gestir á Íslandi sem komu í gegnum Keflavíkurflugvöll voru rétt tæplega tvær milljónir í fyrra og fækkaði um 330 þúsund milli ára, eða sem nemur 14,2%. Var þetta í fyrsta skipti í 9 ár sem ferðamönnum hér á landi fækkaði milli ára. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að niðurstaðan sé hins vegar varnarsigur þegar horft er til falls WOW air og áhrifa þess.

Skarphéðinn segir í samtali við mbl.is að fljótlega eftir fall WOW air í mars í fyrra hafi komið upp spár um mikinn samdrátt ferðamanna, enda var WOW air á þessum tíma að flytja um þriðjung erlendra ferðamanna sem hingað komu með flugi. „Að árið endi í -14,2% er ákveðinn varnarsigur,“ segir hann og bætir við að margir hafi spáð muni verri niðurstöðu og meiri samdrætti. Ástæðan fyrir því að svo fór ekki segir hann aðallega vera þá að Icelandair hafi gert miklar breytingar á sætaframboði sínu sem miðaði að því að fá fleiri ferðamenn hingað til lands í stað þess að horfa til tengifarþega sem voru að fara yfir hafið.

Þessi áherslubreyting Icelandair endurspeglast að sögn Skarphéðins í þeirri niðurstöðu að hlutur Bandaríkjamanna í samdrættinum er 70%, eða fækkun um 230 þúsund farþega. Þegar Bretar og Kanadabúar eru taldir með standa þessar þrjár þjóðir fyrir 90% af fækkuninni.

Skarphéðinn segir að það séu ekki bara neikvæðar fréttir í þessum tölum. „Kínverjum heldur áfram að fjölga og það er þróun sem hefur verið í gangi í nokkur ár og er mjög ánægjuleg. Þá eru gömlu góðu markaðirnir nokkuð stöðugir eða lítil fækkun þar,“ segir hann og vísar þar til Mið-Evrópu og Norðurlandanna.

Bandaríkjamenn hafa hingað til þótt verðmætir gestir, en eyðsla þeirra á hvern dag hefur verið nokkuð mikil. Skarphéðinn segir að þeir dvelji hins vegar skemur en margir aðrir, meðal annars þeir sem komi frá fyrrnefndu „gömlu góðu mörkuðunum“.

Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss.
Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss. mbl.is/Hari

Skipting farþega yfir árið er annað sem Skarphéðinn segir að skipti miklu máli og að hér hafi verið minni árstíðarsveifla en víða í nágrannalöndum okkar. Í tölunum sem birtust í gær yfir árið 2019 í heild megi hins vegar sjá að árstíðasveiflan sé að aukast frá fyrri árum. „Það eitt og sér er óhagstæð þróun,“ segir hann, en bendir á að vafasamt sé að draga ályktun frá einu ári. Hins vegar þurfi að fylgjast vel með þróuninni á þessu ári og sjá hvort sveiflan muni enn frekar aukast í ár. „Við þurfum að halda í það sem við höfum haft í þessum efnum,“ segir hann.

Undanfarið hafa bæði nýtt WOW air, sem Michele Roosevelt Edw­ards stendur á bak við, og Play gefið til kynna að þau séu á leiðinni í loftið. Skarphéðinn segir að ef annað hvort eða bæði þessara félaga komi af þeim þunga á markaðinn sem þau hafa gefið í skyn muni það muna talsverðu. Miðað við óbreytta stöðu segir hann hins vegar að búast megi við svipuðum fjölda farþega á þessu ári og var í fyrra, það er rétt í kringum tvær milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK