Kaupa allt hlutafé í Bláfugli

Flugvél Bluebird.
Flugvél Bluebird. Ljósmynd/Aðsend

Avia Solutions Group (ASG) og BB Holding ehf. hafa gert með sér samning um kaup og sölu á öllu hlutafé í Bláfugli ehf. (Blubird Nordic). Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og Samgöngustofu og kaupverð er trúnaðarmál.

„Við munum leggja metnað í að stækka og styrkja Bláfugl á komandi mánuðum,“ er haft eftir Gedimins Ziemelis, stofnanda og stjórnarformanni ASG, í tilkynningu.

„Með þessari fjárfestingu erum við komin í rekstur venjulegra fraktflugvéla. Við erum nú þegar eitt stærsta blautleigufyrirtækið í Evrópu og vildum styrkja okkur í fraktflutningum. Í dag erum við í ASG með 7 flugrekstrarleyfi (e. AOC) í mörgum löndum og við hyggjumst ná fram samlegð með kaupum á Bluebird, meðal annars í nýtingu mannafla, viðhaldi og leigukostnaði flugvéla.“

Gedimins Ziemelis, stofnandi og stjórnarformaður AGS.
Gedimins Ziemelis, stofnandi og stjórnarformaður AGS. Ljósmynd/Aðsend

Bláfugl starfar undir hjáheitinu Bluebird Nordic. Félagið var stofnað árið 1999 og hóf flugstarfsemi árið 2001 með íslenskt flugrekstrarleyfi. Félagið hefur verið með allt að 8 B737-fraktflugvélar í rekstri.

Bluebird Nordic starfar einkum á sk. blautleigumarkaði (e. Wet Lease) erlendis og flýgur þá fyrir önnur félög, s.s. DHL, UPS og ASL/FedEx og fleiri. Þá starfar Bláfugl/Bluebird Nordic einnig á fraktmarkaði til og frá Íslandi með áframtengingar um allan heim einkum með UPS, Emirates og Aer Lingus.

Avia Solutions Group er stærsta fyrirtæki Mið- og Austur Evrópu í flugtengdri þjónustu. ASG er með um 90 skrifstofur og starfsstöðvar í um 50 löndum. Hjá félaginu og dótturfyrirtækjum starfa um 5.000 manns, tekjur 2019 námu um 1,5 ma € og starfið er á flestum sviðum flugtengdrar starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK