Ótímabært að ræða áhrif mögulegrar lokunar

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar telur með öllu ótímabært að fara …
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar telur með öllu ótímabært að fara að skoða hvaða áhrif mögulegt brotthvarf álversins í Straumsvík gæti haft, en um 23% af allri orku sem Landsvirkjun seldi á síðasta ári fóru til álversins. mbl.is/Árni Sæberg

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir „alveg ótímabært“ að ræða hvaða mögulegu afleiðingar lokun álversins í Straumsvík myndi hafa á rekstur Landsvirkjunar. Nú er að hefjast samtal á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto, eiganda álversins, sem snýst um að greina hver sé meginorsakavaldur fyrir erfiðri stöðu álversins.

„Svo er mögulegt að hefja viðræður um orkuverð í kjölfarið, en það hefur ekki verið ákveðið,“ segir Hörður í samtali við mbl.is, en Rannveig Rist forstjóri ISAL hefur rætt við fjölmiðla í dag um að of hátt raforkuverð, bæði í innlendum og erlendum samanburði, sé lykilástæða fyrir viðvarandi taprekstri álversins. Fíllinn í herberginu, sem nú verði að ræða.

Hörður getur, vegna trúnaðarskyldu, ekki svarað því hvort það standist að verð til ISAL sé hærra en gengur og gerist til annarra stjóriðjufyrirtækja hérlendis, en ítrekar að Landsvirkjun telji sig bjóða upp á verð sem sé „sanngjarnt“ og „mjög samkeppnishæft miðað við hvað er í boði annars staðar í heiminum.“

Tók yfirlýsingu Rio Tinto ekki sem hótun

Rio Tinto sendi frá sér afdráttarlausa tilkynningu í morgun þar sem haft var eftir Alf Barrios forstjóra fyrirtækisins að álverið væri ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar og allar leiðir yrðu skoðaðar til þess að bæta samkeppnisstöðuna, en einnig að mögulegt væri að álverinu yrði lokað.

Spurður hvort hann hafi tekið tilkynningu Rio Tinto sem hótun, um að ellegar fái Rio Tinto betra raforkuverð eða hafi sig af landi brott, segir Hörður að þannig hafi yfirlýsingin ekki verið túlkuð af hálfu Landsvirkjunar.

„Við gerum okkur grein fyrir því að staða fyrirtækisins er erfið og ytri aðstæður í áliðnaði alls staðar í heiminum eru mjög erfiðar nú, það er lágt afurðaverð og samdráttur í eftirspurn, svo við skiljum erfiðleika fyrirtækisins og viljum gjarnan setjast niður með þeim og sjá hvort hægt sé að finna einhverjar leiðir til þess að tryggja reksturinn,“ segir forstjórinn.

Bíða eftir upplýsingum um rekstur ISAL

Hann segir aðspurður að stjórnendur Landsvirkjunar muni ekki taka neina afstöðu til þess hvort möguleiki sé að semja um lægra raforkuverð til álversins fyrr en Landsvirkjun hafi „fengið skýra sýn á reksturinn.“

„Það eru mjög takmarkaðar opinberar upplýsingar um reksturinn hjá þeim og við gerum ráð fyrir að fá þær upplýsingar núna á næstu vikum,“ segi Hörður, sem telur með öllu ótímabært að fara að skoða hvaða áhrif mögulegt brotthvarf álversins í Straumsvík gæti haft, en um 23% af allri orku sem Landsvirkjun seldi á síðasta ári fóru til álversins.

„Þessi skoðun er bara að byrja hjá þeim en við vonum að þessi elsti viðskiptavinur okkar finni áfram rekstrargrundvöll á Íslandi,“ segir Hörður.

Skýrt hvar ábyrgðin liggur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra iðnaðarmála var innt eftir því í samtali við mbl.is fyrr í dag hvort ríkisstjórnin myndi grípa til einhverra aðgerða, færi svo að ákveðið yrði að loka álverinu í Straumsvík og sagði hún of snemmt að fara að ræða það.

Hörður segir að lögin um Landsvirkjun séu skýr og kveði á um að það séu stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar sem beri ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og þeim beri að gæta hagsmuna eigenda þess, ríkisins, í samningaviðræðum við viðskiptatvini. „Svo það er alveg skýrt hvar ábyrgðin liggur,“ segir Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK