Sjá ekki út úr taprekstri

Rannveig Rist forstjóri álversins í Straumsvík segir spurð um tildrög þess að fyrirtækið hafi lýst því yfir í morgun að eigandi álversins, Rio Tinto, íhugi að loka verksmiðjunni, það stafa af því að álverið í Straumsvík hafi verið í taprekstri í sjö – átta ár. Tapið hafi numið um 10 milljörðum í fyrra og fyrirséð er a.m.k. fjögurra milljarða tap á þessu ári.

„Þannig að þetta er viðvarandi taprekstur og við sjáum ekki út úr þessu ástandi. Við erum búin að spara hér í rekstri hægri vinstri árum saman og verið í aðhaldsaðgerðum. Við erum búin að endursemja við birgja og flutningsaðila osfrv. Við erum búin að gera það sem í okkar valdi stendur, en samt náð mjög góðum rekstrarárangri. Það er gríðarlega góður árangur í verksmiðjunni, svakalega fínn gangur, og á mörkuðunum erum við alls staðar með hæstu einkunn hjá viðskiptavinum okkar.“

Borga miklu hærra verð fyrir raforkuna en aðrir

Rannveig segir að álið sem búið er til í verksmiðjunni sé í hæsta gæðaflokki og framleiddar séu flóknar og dýrar vörur sem fáir aðrir aðilar geti framleitt.

„Við höfum mikla sérhæfingu sem byggir á mikilli þekkingu, og við erum búin að komast eins langt og hægt er með þetta. Við erum alltaf með þetta tap, og megin ástæða fyrir því er að við erum að borga miklu hærra verð fyrir raforkuna en aðrir í iðnaðinum, bæði þegar litið er hér innanlands eða skoðaður er samanburður við útlönd. Þannig að við erum með mjög óhagstætt raforkuverð og eigum ekki annars kost. Þannig að það er ekki hægt að halda þessum taprekstri endalaust áfram. Það hlýtur að koma að því að menn fari að tala um fílinn í herberginu og ef það er ekki að skila árangri sem leiðir til að fyrirtækið verði sjálfbært, þá verðum við að fara í það að loka.“

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi.
Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tvisvar reynt að selja álverið

Rannveig segir að búið sé að reyna að selja álverið tvisvar. Hún vísar þar til þess þegar Norsk Hydro ætlaði að kaupa álverið, en hætti við vegna ytri aðstæðna. Eftir það söluferli hafi félagið aftur verið sett í söluferli, en ekki hafi orðið sala úr því. Nú væri því ferli lokið. „Nú er ekki verið að vinna í sölumálum, heldur verið að ræða við aðila hérlendis um hvort eigi að halda þessum rekstri áfram.“

Spurð nánar um raforkuverðið ítrekar Rannveig að fyrirtækið borgi allt annað verð en aðrir hér innanlands.

„Vandi minn í þessu er að verðið er því miður trúnaðarmál. Ég vildi svo gjarnan vilja segja frá verðinu, en þegar samningurinn var gerður þá var staðan þannig hjá Landsvirkjun að þeir mátu það sem mjög mikilvægt að verðinu yrði haldið leyndu og það hefur alla tíð verið mjög óheppilegt fyrir okkur, og er tímaskekkja í samfélaginu. Nútíminn er miklu opnari og meira upplýsingaflæði, og ég myndi gjarnan óska þess að þessir samningar yrðu ekki trúnaðarmál. En meðan svo er er ég alveg bundin af því.“

Ákvörðun í júní

Rannveig segir að Rio Tinto gefi sér tíma fram í júní til að taka ákvörðun um lokunina.
Hún segir að móðurfyrirtækið hafi bæði selt og lokað álverum í Evrópu á undanförnum árum, og álverið í Straumsvík sé í dag eina álver fyrirtækisins í Evrópu.

Einn kosturinn í stöðunni, eins og fram kemur í tilkynningu Rio Tinto, er að minnka framleiðslu álversins. Nú er fyrirtækið að framleiða 184 þúsund tonn á ári, en hámarksafkastageta sé 212 þúsund tonn. „Það er möguleiki að minnka þetta eitthvað ef ekki næst niðurstaða í þetta,“ segir Rannveig.

Sorg hjá starfsfólki

Spurð út í viðbrögð starfsfólks á starfsmannafundi í morgun, segir Rannveig að fólkið hafi tekið fregnunum af yfirvegun en sorg. „Það voru mjög uppbyggilegar spurningar og góðar umræður, og mér var þakkað fyrir að stíga hreinskilnislega fram og segja stöðuna eins og hún er. Það var mjög vel mætt eins og alltaf er á starfsmannafundum hjá mér, og ég tala alltaf bara beint og blaðlaust við fólkið og við eigum mjög góð samskipti og þekkjumst vel. Ég er búin að vera hér í bráðum 24 ár. Ég upplifði þetta sem sorg en samt var smá vonarneisti vegna þess að loksins væri farið að ræða um það sem er raunverulegt vandamál.“

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK