Bæta upplýsingagjöf til kínverskra ferðamanna

Sturla segir bætta uppýsingagjöf m.a. varða hagsmuni tryggingafélaga, bílaleiga og …
Sturla segir bætta uppýsingagjöf m.a. varða hagsmuni tryggingafélaga, bílaleiga og björgunarsveita. Lausn Splittis ætti að létta starfsfólki í ferðaþjónustu lífið og stuðla að því að kínverskir ferðamenn séu öruggir á landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þessar mundir beinast augu ferðaþjónustunnar ekki hvað síst að kínverskum gestum. Mjög hefur fjölgað Kínverjum sem koma til landsins og útlit fyrir að þeir verði bráðum þriðji stærsti ferðamannahópurinn á Íslandi þegar flokkað er eftir þjóðerni. Ætti fjölgun Kínverja að vera ágætisvítamínssprauta fyrir hagkerfið enda kínverskir ferðamenn eyðsluglaðir og hafa að jafnaði langa viðdvöl.

En dæmin sanna að kínverskum ferðamönnum hættir til að fara sér að voða og reglulega berast fréttir af slysum, eignatjóni og jafnvel dauðsföllum sem rekja má til þess að gestir frá þessu fjarlæga landi lögðu rangt mat á aðstæður og skildu ekki hvaða hættur þarf að varast á lítilli eyju norður í Atlantshafi þar sem náttúruöflin geta verið varasöm.

Íslenska tæknifyrirtækið Splitti þróar um þessar mundir tæknilausn sem miðar að því að bæta upplýsingagjöf til kínverskra ferðamanna og þannig bæði fyrirbyggja slysin en um leið bæta þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja við þennan hóp. Lausn Splittis brúar m.a. tungumálabilið enda enskukunnáttu kínverskra gesta oft ábótavant og leitun að þeim starfsmanni íslenskrar bílaleigu, hótels eða veitingastaðar sem á auðvelt með að tjá sig á kínversku. 

Ísland má ekki verða hættulegur áfangastaður

ViðskiptaMogginn ræddi síðast við Splitti síðasta sumar en þá var fyrirtækið byrjað að láta að sér kveða við að tengja íslensk fyrirtæki við kínverska samfélagsmiðla og greiðsluforrit á borð við WeChat og Alipay. Sturla Þórhallsson, framkvæmdastjóri Splittis, segir það varða hagsmuni greinarinnar allrar að huga betur að öryggi kínverskra ferðamanna enda háalvarlegt mál þegar ferðamenn láta lífið í slysi, en einnig verulegur kostnaður af hverju óhappi fyrir ferðaþjónustufyrirtækin og samfélagið. „Í sumum tilvikum leggst kostnaðurinn þyngst á björgunarsveitirnar sem þurfa að gera út leitar- og björgunarhópa, en í öðrum tilvikum er tjónið verulegt fyrir tryggingafélögin. Jafnvel bara það að missa bílaleigubíl úr notkun á meðan gert er við dæld þýðir minni tekjur fyrir bílaleigurnar,“ segir Sturla. „Þá gæti það laskað greinina alla ef Ísland byrjar að fá á sig það orðspor á kínverskum ferðamarkaði að vera hættulegur áfangastaður.“

Lausn Splittis er í grunninn ósköp einföld: að útbúa nýtt fræðsluefni á kínversku eða þýða yfir á kínversku það efni sem þegar er til og gera aðgengilegt á kínverskum samfélagsmiðlum. Ferðamenn geta nálgast fróðleikinn m.a. með því að skanna QR-kóða sem ferðaþjónustufyrirtæki sýna á áberandi stað, s.s. inni í bílaleigubílum eða við afgreiðsluborð hótels. Splitti á í nánu samstarfi við Safe Travel og fleiri aðila sem koma að upplýsingagjöf til ferðamanna, um að þýða fróðleik um örugg ferðalög á Íslandi og býður tæknin upp á þann möguleika að veita ferðalöngum staðbundnar upplýsingar og viðvaranir ef t.d. þarf að sýna sérstaka aðgát vegna veðurs. „Við vitum þá hvar ferðalangurinn er og erum ekki að trufla fólk á Suðurlandi með viðvörunarskilaboðum þegar von er á kafaldsbyl á Norðurlandi,“ útskýrir Sturla en upplýsingakerfið er m.a. beintengt við kerfi Vegagerðarinnar.

Sparar starfsfólki tíma

QR-kóðar þýða m.a. að ferðaþjónustufyrirtæki þurfa ekki að reiða sig jafn mikið á prentað efni, og á þetta fyrirkomulag á upplýsingagjöf að geta verið tímasparandi fyrir starfsfólk sem stundum á í mestu vandræðum með að fræða kínverska gesti þannig að þeir geti varast hætturnar og átt ánægjulega dvöl. „Þetta þýðir líka að upplýsingarnar geta skilað sér til allra í hópnum. Ef t.d. sex manna hópur frá Kína leigir sér bíl til að skoða landið upp á eigin spýtur þá fær ökumaðurinn lítinn upplýsingabækling þegar hann sækir lyklana, en allt eins líklegt er að hann brjóti bæklinginn óðara saman og stingi beint í vasann. Ef QR-kóði er í farþegarými bílaleigubílsins þá er nokkuð víst að allir í hópnum verða óðara búnir að skanna kóðann og byrjaðir að lesa sér til um færðina og hvaða hættur þarf að varast.“

Sturla minnir á að það verði æ brýnna að bæta upplýsingagjöfina til þessa hóps enda má reikna með verulegri fjölgun kínverskra gesta sem skoða landið af sjálfsdáðum, frekar en með aðstoð leiðsögumanns. „Nú stendur til að bjóða upp á beint flug milli Íslands og Kína, með stuttu stoppi í Helsinki, og næsta víst að það verður til þess að minni hópum, sem ferðast á eigin vegum, mun fjölga stórlega. Með beina fluginu kæmi mér ekki á óvart að kínverskum ferðamönnum fjölgaði um 15-18% á þessu ári og hefðu líklega orðið 35% ef ekki hefði verið fyrir kórónuveirufaraldurinn. Við vitum líka að ef tilraunir með betri flugtengingu milli Íslands og Kína ganga vel þá eru mörg kínversk flugfélög í viðbragðsstöðu og vís til að bæta Íslandi við leiðakerfi sitt áður en langt um líður. Grunar mig að árið 2021 verði kínverskir ferðalangar orðnir mjög áberandi hér á landi.“

Þessi grein birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum 5. febrúar 2020.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK