Seðlabankastjóri kaupir konunglegt sóttvarnaskjal

Forsíða tilskipunarinnar.
Forsíða tilskipunarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri fann á vefnum fyrstu opinberu sóttvarnatilskipun sem yfirvöld hafa gefið út og er frá árinu 1787. Þetta var rétt eftir móðuharðindin og fólksfjöldi landsins var kominn niður fyrir 40 þúsund. Ásgeir telur að dönsk yfirvöld hafi án efa óttast að Íslendingar væru að deyja út. Þau settu því fram strangar reglur um samskipti erlendra áhafna við Íslendinga — til þess að hindra að mislingar og bólusótt bærust til landsins. Til að mynda var lagt blátt bann við að erlendir hásetar væru grafnir í landi — ef þeir höfðu verið veikir. Heldur skyldi þeim og fötum þeirra sökkt í sjó. Þetta er því merkileg tilskipun — og innsigli Kristjáns 7. Danakonungs er enn áfast því eintaki sem Ásgeir fann.

Sá konungur glímdi að vísu við geðveiki alla ævi — en ríkisstjórn hans markaði samt djúp spor í sögu landsins. Í hans tíð, eftir móðuharðindin, var Reykjavík gerð að stjórnsýslumiðstöð landsins og raunar höfuðborg. Það er þegar biskupsstólar og latínuskólar á Hólum og Skálholti voru sameinaðir og fluttir til Reykjavíkur, sem og Alþingi frá Þingvöllum.  

Aðspurður segist Ásgeir vera ákafur bókasafnari allt frá unga aldri. Hann rak augun í þetta merkilega skjal á vafri sínu á netinu og festi kaup á því á danskri uppboðssíðu. Hann greiddi fyrir það um 10 þúsund íslenskar krónur sem hann segir ótrúlega vel sloppið. Hann segir hægt að finna furðulegustu hluti hér og þar á netinu, t.d. á Ítalíu, í Kanada og Danmörku svo einhverjir staðir séu nefndir.

Íslenskar bækur og plögg frá fyrri tíð eru sjaldgæfar og erlendir bóksalar eigi oft erfitt með að verðleggja þær. Hann segir þau ýmist verðlögð of hátt eða of lágt. Hann segist vera tækifærissinnaður bókasafnari og finnst mjög gaman að rekast á fágæti frá fyrri tíð sem hann jafnvel vissi ekki að væru til. Hann hafi þó sérstakan áhuga á bókum og skjölum um efnahagsmálefni og sögu landsins en hefur lítið lagt sig eftir guðsorðabókum.

Ásgeir segir ekki marga á sínum aldri deila sama áhugamáli, að safna bókum. „Þetta er deyjandi grein. Við erum ekki margir eftir,“ segir hann. Eftir að hann tók við stjórntaumum Seðlabankans viðurkennir hann að minni tími gefist til að bæta í bókasafnið fágætum safngripum. Mun meira næði hafi gefist til slíkra hluta í Háskólanum. Hann segir hins vegar að Seðlabankinn eigi gott safn fágætra bóka sem hann vilji gjarnan gera hátt undir höfði. „Kannski heppnast að vekja aftur áhuga ungs fólks á fágætum bókum,“ segir hann sposkur.   



Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er mikill bókasafnari.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er mikill bókasafnari. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK