Reitir hagnast um 3,3 milljarða

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. mbl.is/Styrmir Kári

Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 3,32 milljarða á síðasta ári, samanborið við 110 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu var 7,7 milljarðar, samanborið við 7,6 milljarða árið áður, en munur á afkomu félagsins milli ára fólst aðallega í matsbreytingu. Var hún jákvæð um 2,3 milljarða í fyrra, en neikvæð um 3,1 milljarð árið áður.

Í tilkynningu frá félaginu vegna uppgjörsins er haft eftir Guðjóni Auðunssyni forstjóra að reksturinn í fyrra hafi verið ágætur þrátt fyrir mótbyr í efnahagslífinu. Meðal stærstu verkefna ársins hjá félaginu voru breytingar og endurnýjun á húsnæðinu að Skaftahlíð 24, en þar var fjölmiðlafyrirtækið 365 áður til húsa. Um mitt síðasta ár fékk Landspítalinn húsnæðið afhent undir starfsemi höfuðstöðva sinna.

Í framhaldinu var farið í endurbætur á Eiríksgötu 5, þar sem höfuðstöðvar spítalans höfðu áður verið og fær það nýtt hlutverk á þessu ári. Þá flutti Sjúkraþjálfun Íslands í Kringluna á síðasta ári og World Class áformar að opna stöð þar næsta haust, en Reitir eru eigendur Kringlunnar.

Þá mun nýtt hótel undir merkjum Hyatt Centric opna í gamla sjónvarpshúsinu að Laugavegi 176 árið 2022, en framkvæmdir þar hefjast í ársbyrjun 2021. Félagið vinnur einnig að þróun á Orkureit, Kringlusvæði og Blikastaðalandi í Mosfellsbæ.

Samkvæmt áætlun félagsins er horft til þess að tekjur Reita verði svipaðar á þessu ári og síðustu tveimur árum, eða 11,5-11,65 milljarðar og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar verði 7,6-7,75 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK