Tafir á uppbyggingu juku kostnað vegna óveðurs

Óveðrið í desember var stærsta ástæða þess að rekstrargjöld Landsnets …
Óveðrið í desember var stærsta ástæða þess að rekstrargjöld Landsnets fóru tæplega 400 milljónum fram úr áætlun síðasta árs. mbl.is/Eggert

Rekstrargjöld Landsnets jukust um þrjár milljónir Bandaríkjadala, eða um 387 milljónir íslenskra króna, á síðasta ári miðað við áætlanir félagsins. Má það að langstærstum hluta rekja til þess kostnaðar sem hlaust til vegna óveðursins í desember. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var í gær. Þá segir að koma hefði mátt í veg fyrir hluta kostnaðarins ef uppbygging kerfisins hefði gengið eftir undanfarin ár.

Hagnaður ársins 3,4 milljarðar

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði nam 50,2 milljónum Bandaríkjadala, eða um 6,1 milljarði króna. Var rekstrarhagnaðurinn árið áður 61,1 milljónir dala, eða um 7,4 milljarðar króna.

Hagnaður eftir skatta og fjármagnsliði var 28,1 milljón dala, eða um 3,4 milljarðar króna, samanborið við 37,1 milljón dala, eða 4,5 milljarða króna árið 2018.

Rekstrartekjur félagsins námu 140,3 milljónum dala, samanborið við 154,1 milljón árið á undan. Lækkuðu tekjur af flutningi til stórnotenda um 2,7 milljónir dala milli ára og var helsta ástæða þess lækkun gjaldskrár, jafnvel þótt aflaukning í kerfinu hafi skilaði auknum tekjum á móti. Tekjur af flutningi til dreifiveitna lækkuðu um 7,4 milljónir dala og skýrist það helst af gengisáhrifum og lægri tekna af skerðanlegum flutningi vegna loðnubrests. Þá lækkaði einnig sala á kerfisþjónustu og orkutöpum á árinu vegna gengisáhrifa.

Heildareignir Landsnets í árslok námu 852,3 milljónum dala, eða um 110 milljörðum og hækka úr 846,3 milljónum dala í árslok 2018. Handbært fé nam 31 milljón dala í árslok og eiginfjárhlutfall félagsins var 45,9%.

Samkvæmt áætlun félagsins er gert ráð fyrir 27,2 milljóna dala hagnaði af rekstrinum á þessu ári. Er gert ráð fyrir 70 milljóna dala framkvæmdum að minnsta kosti.

Tókst aðeins að fjárfesta fyrir helming af áætlun síðasta árs

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Guðlaugu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, að árið í fyrra hafi verið ár sviptinga vegna veðurs, en fjármálalegur stöðugleiki hafi einkennt reksturinn. „Við vorum minnt á orkuöryggi og mikilvægi rafmagns í desember. Þrátt fyrir töluverða áraun og straumleysi hjá notendum gengu áætlanir okkar eftir og vinna við viðgerðir gengur vel. Að okkar mati hefði verið hægt að koma í veg fyrir hluta kostnaðarins vegna óveðursins ef uppbygging kerfisins hefði gengið samkvæmt áætlunum síðustu ár,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets.
Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets. Ljósmynd/Aðsend

Segir Guðlaug að á síðasta ári hafi aðeins tekist að fjárfesta fyrir helming af áætluðum fjárfestingum ársins, meðal annars vegna tafa á leyfisferlum. „Þetta er svipuð staða og við höfum horft á undanfarin ár. Nú er vinna í gangi í stjórnkerfinu við að einfalda regluverkið og við höfum miklar væntingar til þess. Fram undan er styrking flutningskerfisins og árið 2020 verður eitt af stærstu framkvæmdaárum félagins. Áætlanir okkar gera ráð fyrir framkvæmdum fyrir að lágmarki 70 milljónir USD á árinu 2020.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK