Grænn föstudagur eftir rauða viku

Icelandair endaði vikuna á að hækka eftir nokkuð skarpa lækkun …
Icelandair endaði vikuna á að hækka eftir nokkuð skarpa lækkun í vikunni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Eftir miklar lækkanir á mörkuðum í vikunni, sem byrjaði með svörtum mánudegi með skarpri lækkun og fimmtudegi þar sem markaðir brugðust illa við ferðabanni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, var nokkuð jákvæðari tónn yfir mörkuðum í dag, bæði hér heima og erlendis.

Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni hér á Íslandi hækkaði um 2,28% í viðskiptum dagsins, en mest hækkun varð á bréfum Icelandair. Hækkuðu þau um 8,81% og standa nú í 4,2 krónum á hlut. Þrátt fyrir þessa hækkun vegur hún enn lítið á móti þeirri lækkun sem hefur orðið undanfarið á bréfum félagsins. Þannig hafa þau lækkað um 50% síðustu þrjár vikur.

Hlutabréf Brims hækkuðu um 8,51% í 51 milljón króna viðskiptum í dag og í Iceland Seafood um 6,94%. Var talsverð sveifla á bréfum þess félags, en við upphaf viðskipta lækkuðu þau um tæplega 5% áður en þau tóku að rísa á ný og var hækkunin sem fyrr segir 6,94% í lok dags.

Skeljungur hækkaði um 6,81% í 122 milljóna króna viðskiptum og Eik fór upp um 6,15%.

VÍS, Sjóvá og TM enduðu einnig öll á því að hækka, en í byrjun dags höfðu bréf allra fyrirtækjanna þriggja lækkað. Endaði TM upp um 4,84%, Sjóvá fór upp um 4,08% og VÍS upp um 2,38%.

Aðeins Sýn, Kvika og Arion banki fóru niður, en mest varð lækkunin hjá Arion um -1,69%. Í dag keyptu tveir fruminnherjar bréf í félaginu, en Krummi Kapital ehf., keypti 77 þúsund hluti fyrir samtals fimm milljónir. Er félagið tengt Herdísi Dröfn Fjeldsted, varaformanni stjórnar félagsins. Þá keypti Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, fyrir tvær milljónir, eða samtals um 31 þúsund hluti.

Í Evrópu hækkuðu markaðir einnig, en FTSE-vísitalan í London fór upp um 2,46%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 0,77% og CAC 40 í Frakklandi endaði 1,83% upp.

Vestanhafs hafa helstu vísitölur einnig hækkað, en Dow Jones er upp um 3,76%, S&P500-vísitalan er upp um 3,59% og Nasdaq um 3,39%. Þeir markaðir eru þó enn opnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK