Fyrirtæki misvel undirbúin undir faraldur

Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar í gær.
Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtæki virðast vera mjög misvel búin undir útbreiðslu kórónuveirunnar hérlendis. Flest fyrirtæki fylgja tilmælum landlæknis um hreinlæti og takmörkun á samgangi milli fólks en virðast setja minna púður í að búa sig undir afleiðingar sem útbreiðsla veirunnar mun hafa á viðskipta- og fjárhagshlið þeirra. 

Þetta segir Sigurvin Bárður Sigurjónsson, verkefnastjóri hjá KPMG, sem hélt erindi á fundi Stjórnvísi og KPMG um viðbrögð við kórónuveirunni. 

„Þetta virðist mjög mismunandi á milli félaga. Almennt eru félög að fylgja tilmælum Embættis landlæknis um hreinlæti vel og mörg eru farin að takmarka samgang fólks innan og utan veggja fyrirtækja. Það er meira verið að lágmarka áhættu í daglegri vinnu fólks. Hins vegar virðast þau almennt ekki hafa sett eins mikið púður t.d. í viðskipta- og fjárhagshliðina, það er því oft verið að horfa of þröngt á möguleg áhrif á starfsemina, segir Sigurvin spurður hvort fyrirtæki hérlendis væru almennt vel undirbúin mögulegri útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Þetta er sérstaklega mikilvægt við þær aðstæður sem nú eru að skapast og þá sérstaklega ef þetta ástand varir næstu mánuði og eitthvað fram á sumarið. Í þessu samhengi má nefna að mikilvægt er að starfsmenn geti unnið saman með skilvirkum hætti, þó staðsettir fjarri hver öðrum, með tæknilausnum og samskiptakerfum eins og t.d. Microsoft Teams.“

„Fyrirtæki geta t.a.m. þurft að glíma við lausafjárskort sem afleiðingu af tekjusamdrætti vegna COVID-19. Þar er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir vænt sjóðstreymi miðað við mismunandi sviðsmyndir svo unnt sé að grípa til viðeigandi og fumlausra aðgerða eftir því sem landslagið skýrist á þessum miklu óvissutímum. Það þarf að undirbúa aðgerðir sem áhrif hafa á fjárstreymi, m.a. með stýringu veltufjármuna og meta hvar hægt er að útvega aukið fjármagn ef þörf verður á. Það getur falið í sér sölu eigna, aðgerðir í rekstri sem lækka kostnað og lántökur,“ segir Sigurvin og bætir því við að almennt séu eftirlitsskyldir aðilar eins og viðskiptabankarnir sem lúta kröfum Evrópusambandsins varðandi viðbúnaðaráætlanir betur undirbúnir en félög sem ekki falla undir slíkar kröfur.

Þarf að byggja á raunhæfum sviðsmyndum

Sigurvin segir að ýmislegt skipti máli í góðri viðbragðsáætlun fyrirtækja. 

Mikilvægt er að hlutverkaskipting og ákvarðanavald innan félagsins og allir ferlar sem unnið er eftir í aðkallandi aðstæðum séu skýrir, hnitmiðaðir og aðgengilegir.

Það felur til dæmis í sér að viðbragðsteymi sé skilgreint sem fylgist með breytingum og fundar reglulega varðandi COVID-19 og aðra þætti sem viðbúnaðaráætlunin tekur til. 

„Sömuleiðis að áætlunin byggist á raunhæfum sviðsmyndum sem geta komið upp. Skilgreint sé við hvaða aðstæður viðbúnaðaráætlunin er ræst, að hluta eða í heild, eða hvaða aðilar innan félagsins hafi heimild til að ræsa hana. Mikilvægt er að stjórnendur hafi sameiginlegan skilning á hvaða aðstæður kalli á tiltekin viðbrögð, frekar en það sé verið að ræða það þegar þær raungerast,“ segir Sigurvin og heldur áfram:

Sigurvin Bárður Sigurjónsson
Sigurvin Bárður Sigurjónsson Ljósmynd/KPMG

„Mikilvægt er að hlutverk og ákvarðanavald þeirra aðila sem koma að viðbúnaðinum sé skýrt og að ábyrgð sé deilt með viðeigandi hætti. Tími stjórnenda er mjög verðmætur í þessum aðstæðum og óæskilegt er að þeir séu að sinna málum sem aðrir geta tekið á með jafn áhrifaríkum hætti. Gott er að áætlunin skilgreini möguleg viðbrögð sem eru til skoðunar í mismunandi aðstæðum, án þess að það sé tæmandi yfirlit.“

Sömuleiðis skiptir samskiptaáætlun innan og utan félagsins, þar sem skilgreint er hverjir sinna innri og ytri samskiptum, og mögulega hafa forskrifaðar tilkynningar til eftirlitsaðila og markaðar miklu máli að sögn Sigurvins. 

Gott er að miða við að viðbragðsáætlunin nái yfir fjölbreytt svið sem breikkar eftir því sem aðstæður verða alvarlegri s.s. vegna áhrifa á viðskiptavini, þjónustusamninga, fjármál og rekstrarhæfi félaga, upplýsingatækni og mögulega aðkomu lykilbirgja, lánveitenda, stjórnar og eigenda á mismunandi stigum. Lykilatriði er að allir hlutaðeigandi aðilar séu upplýstir um efnisatriði áætlunarinnar og að hún hafi verið prófuð, eftir því sem við á.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK