Nokkrar verslanir skella í lás

Gestum Smáralindar hefur óneitanlega fækkað frá því að samkomubannið tók …
Gestum Smáralindar hefur óneitanlega fækkað frá því að samkomubannið tók gildi og fækkaði um 40-45% í síðustu viku þegar um 5-6.500 gestir heimsóttu verslunarmiðstöðina daglega. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Dæmi eru um að verslanir í Kringlu og Smáralind hafi ákveðið að loka alveg í kjölfar herts samkomubanns sem tekur gildi á miðnætti. Í Smáralind hafa um fimm verslanir skellt í lás og tæplega tíu verslanir og veitingastaðir í Kringlunni. 

Heil­brigðisráðherra ákvað í gær, í sam­ræmi við til­lögu sótt­varna­lækn­is, að tak­marka sam­kom­ur enn frek­ar en áður vegna hraðari út­breiðslu COVID-19 í sam­fé­lag­inu. Viðburðir þar sem fólk kem­ur sam­an verða tak­markaðir við 20 manns í stað 100 áður.

„Ástandið hefur áhrif á flæði inn í húsið og á verslun almennt, en þetta mun ekki breyta því sem hefur verið hingað til að húsið er áfram opið og verslanir eru opnar þó afgreiðslutími er skertur,“ segir Sigurjón Örn Þórs­son, fram­kvæmda­stjóri Kringl­unn­ar, í samtali við mbl.is   

Setusvæði Stjörnu- og Kringlutorgs lokar

Almennur afgreiðslutími í Kringlunni var styttur þegar samkomubannið tók gildi 15. mars en rekstraraðilar ráða hvernig þeir haga sínum afgreiðslutíma innan þess ramma. „Nú eru menn að fara að nýta sér þessi úrræði stjórnvalda, það er að starfsfólk fari í 25% starfshlutfall og menn munu eflaust þurfa að gera ráðstafanir í þá veru að aðlaga afgreiðslutíma að þeim fjölda sem þeir hafa úr að spila, það mun eflaust hafa áhrif til enn frekari skerðingar,“ segir Sigurjón. 

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar. mbl.is/Hari

Hert samkomubann hefur meðal annars þau áhrif að setusvæði Stjörnutorgs og Kringlutorgs verður lokað frá og með morgundeginum, 24. mars, um óákveðinn tíma. Af þessum ástæðum mun hluti veitingastaða á svæðunum loka eða hafa skerta opnun. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margar verslanir og veitingastaðir ætla að loka í það heila en Sigurjón segir töluna ekki hærri en tíu. 

„Það er ekki mjög mikið, enn sem komið er, en frá og með morgundeginum munum við fara yfir verslanir í húsinu og greina afgreiðslutíma og setja upplýsingar inn á heimasíðuna.“ 

Fimm verslanir hafa lokað í Smáralind

Frekari ráðstafanir verða einnig gerðar í Smáralind vegna herts samkomubanns. Til að mynda verður komið í veg fyrir að gestir hópist saman á göngugötum Smáralindar en engum svæðum verðum alfarið lokað.

„Einhverjar verslanir hafa tekið ákvörðun um að loka alveg tímabundið og margar verslanir hafa stytt afgreiðslutíma og fækkað starfsmönnum,“ segir Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar, í samtali við mbl.is. Fimm verslanir hafa lokað alfarið eins og er og á Tinna von á að þeim fjölgi þegar fram líða stundir.  

Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar.
Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar.

Almennur afgreiðslutími verður sá sami en verslanir stjórna sínum afgreiðslutímum samt sem áður. „En við ætlum að halda húsinu opnu enn sem komið er og erum að vinna statt og stöðugt í því að framfylgja þessum reglum og auka þrif og sóttvarnir í húsinu og verslanirnar sjá um að tuttugu manna reglunni sé fylgt,“ segir Tinna. 

Býst við að gestum fækki um helming

Gestum Smáralindar hefur óneitanlega fækkað frá því að samkomubannið tók gildi og fækkaði um 40-45% í síðustu viku þegar um 5-6.500 gestir heimsóttu verslunarmiðstöðina daglega. Vikuna þar á undan fækkaði gestum um 20% en öllu jafna er meðalfjöldi i gesta á venjulegum degi er í kringum tíu þúsund. 

Gest­um Kringl­unn­ar hefur sömuleiðis fækkað og eru 30-45% færri dag­lega eft­ir að sam­komu­bann tók gildi fyrir viku en á sama tíma miðað við fyrri ár. Eft­ir að sam­komu­bann tók gildi í síðustu viku sækja 6.500-7.000 manns Kringl­una heim dag­lega en á hefðbundn­um viku­degi komu áður 10 til 12 þúsund manns í Kringl­una. 

„Ég á von á því að við förum að sjá helmings minnkun í aðsókn,“ segir Sigurjón og á þá við að gestum fækki alls um 50% miðað  við þá sem sækja Kringluna daglega að öllu jafna. 

Eft­ir að sam­komu­bann tók gildi í síðustu viku sækja 6.500-7.000 …
Eft­ir að sam­komu­bann tók gildi í síðustu viku sækja 6.500-7.000 manns Kringl­una heim dag­lega en á hefðbundn­um viku­degi komu áður 10 til 12 þúsund manns í Kringl­una. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Hlakkar til að sjá Ölmu, Þórólf og Víði faðmast

Sigurjón er samt sem áður bjartsýnn þegar til lengri tíma er litið. „Við vitum að um tímabundið ástand er að ræða og teikn á lofti um það að þegar boðum og bönnum verður aflétt verðum við með Íslendinga sem eru ekki að ferðast erlendis í miklum mæli.“

Þá hefur Sigurjón trú á því að aðgerðir stjórnvalda geri það að verkum að kaupmáttur verði enn til staðar að samkomubanni loknu. „Fólk er ekki að eyða miklum peningum í ferðalög um þessar mundir og það verður eflaust meira í buddunni þegar neyslan fer í gang aftur. Við horfum björtum augum til þess þegar þau faðmast, teymið, sem þau eru búin að lofa okkur,“ segir Sigurjón léttur í bragði og á þá að sjálfsögðu við Víði Reynisson, Þórólf Guðnason og Ölmu Möller sem eru öllum landsmönnum kunnug þessa dagana fyrir vasklega framgöngu á daglegum upplýsingafundum almannavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK