Tesla mest selda bílategundin á Íslandi

Tesla er mest selda bílategundin hér á landi eftir fyrstu …
Tesla er mest selda bílategundin hér á landi eftir fyrstu þrjá mánuði ársins. AFP

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er Tesla sú bílategund sem hefur selst mest þegar kemur að nýjum bílum. Samtals hafa verið nýskráðar 396 Tesla-bifreiðar, en í heild hafa 2.434 fólksbifreiðar verið nýskráðar á landinu það sem af er ári, en þess ber að geta að í flokki fólksbifreiða eru líka stærri bifreiðar eins og jeppar. Það þýðir að rúmlega 16% nýrra bifreiða á Íslandi í ár eru Tesla, eða tæplega ein af hverjum sex nýjum bifreiðum. Þetta má sjá af tölum á vef Samgöngustofu.

Á síðustu 10 árum hefur Toyota alltaf verið mest selda bílategundin hér á landi í lok árs, en þar á eftir hafa meðal annars verið KIA, Hyundai, Volkswagen og Skoda. Það sem af er þessu ári er Toyota í öðru sæti yfir nýskráningar með 332 bifreiðar, Volkswagen með 242 bifreiðar og KIA með 181 bifreið.

Lang flestir bílarnir komu í mars

Fyrsta sending Tesla-bifreiða frá bílaframleiðandanum hingað til lands kom í byrjun mánaðarins, en fram að því hafa Tesla bifreiðar verið fluttar inn í gegnum þriðja aðila. Sést það ágætlega á nýskráningartölunum, en af þeim 396 Tesla bifreiðum sem hafa verið skráðar á árinu voru 384 skráðar í marsmánuði. Fulltrúi Tesla segir að hann minnist þess ekki að hafa séð Teslu hoppa jafn hátt lista á jafn skömmum tíma í neinu landi nema mögulega í Noregi.

Rafmagnsbílar og rafmagns tvinn- og tengilbílar um 60% markaðarins

Það sem af er þessu ári hafa verið skráðir 2.434 fólksbílar hér á landi, Rafmagnsbílar eru 771, eða 31,7% og ef bætt er við rafmagns tvinn- og tengilbílum er fjöldinn 1.401 og hlutfall slíkra bíla í heildarfjölda nýskráðra bíla 57,6%. Jafnframt má geta þess að fleiri nýskráningar voru á rafmagnsbílum en á öðrum tegundum bíla, en næst þar á eftir komu bensínbílar með 538 nýskráningar og dísilbílar með 449 nýskráningu.

Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins, segir í samtali við mbl.is að ef horft sé til sömu þriggja mánaða í fyrra hafi selst 679 bílar í heild sem voru annað hvort rafmagnsbílar eða rafmagns tengil- eða tvinnbílar. Var hlutfall þeirra 25% af nýskráðum bílum á markaði. Milli ára er þetta hlutfall því að meira en tvöfaldast.

En þar með er ekki öll sagan sögð, því það sem af er þessu ári hefur nýskráðum bílum fjölgað sem seldir eru til einstaklinga. Í fyrra voru seldir 1.669 nýir bílar til einstaklinga á fyrsta ársfjórðungi. Í ár er fjöldinn hins vegar 1.856 bílar, eða um 11% aukning. „Þetta eru góðar fréttir en koma ekki á óvart. Það er uppsöfnuð þörf fyrir nýja bíla á Íslandi,“ segir Jón Trausti. Vísar hann til þess að aukin sala Tesla bifreiða skýri þessa aukningu það sem af er ári.

„Sigurvegari ársins verður rafmagnsbíllinn“

Even Sandvold Roland, sam­skipta­stjóri Tesla í Nor­egi og á Íslandi, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að fyrirtækið sé nú að vinna að því að afgreiða nokkurra mánaða pantanir. Samkvæmt heimildum mbl.is má búast við annarri stórri sendingu á næstu 2-3 mánuðum.

Spurður hvort líklegt sé að framleiðandinn muni halda toppsætinu út árið segist Jón Trausti ekki vilja segja til um það. „En sigurvegari ársins verður rafmagnsbíllinn,“ segir hann. „Íslendingar eru að velja sé bíla sem knúnir eru áfram af íslenskri orku.“

Cybertruck frá Tesla er pallbíll og engum öðrum líkur. Þegar …
Cybertruck frá Tesla er pallbíll og engum öðrum líkur. Þegar hafa borist pantanir í 250 þúsund slíka bíla á heimsvísu.

„Það er mjög óvanalegt að fá svona marga bíla á sama tíma, en þetta sýnir áhuga Íslendinga á að fara í umhverfisvænni bíla,“ segir Jón Trausti. Segir hann að á næstu mánuðum og árum megi sjá stærra og stærra hlutfall fara í rafmagnsbíla. „Þetta er það sem koma skal.“

Ekki séð önnur viðlíka dæmi nema frá Noregi

Tesla gefur ekki upp sölutölur eða pantanastöðu eftir ákveðnum löndum, en Roland segir í svari sínu að fyrirtækið sé spennt fyrir íslenska markaðinum. „Við teljum að Ísland geti verið í forystu á alþjóðavísu þegar kemur að orkuskiptum í bílaflotanum.“ Segir hann að miðað við endurnýtanlega orkugjafa, ökuhegðun og loftslag sé skipting yfir í rafmagnsbíla augljós kostur hér á landi.

Spurður út í þá staðreynd að Tesla sé nú sú bílategund sem sé með flestar nýskráningar á Íslandi segir Roland að Tesla hafi séð sterka mánuði og ársfjórðunga á mörkuðum víða. Þannig hafi Tesla verið vinsælasta tegundin í Noregi í mars í fyrra og næst vinsælasta tegundin í Noregi yfir allt árið í fyrra. „Ég held að ég hafi ekki séð önnur dæmi þar sem Tesla fór jafn hratt, frá því að afhendingar hófust á nýjum markaði, upp í fyrsta sæti yfir mest seldu bílategundirnar,“ segir Roland í svarinu.

„Umtalsverður áhugi“ á Cybertruck

Í fyrra var nýr pallbíll frá Tesla kynntur til sölu, en hann gengur undir nafninu Cybertruck. Aðeins hefur verið gefið út opinberlega að 250 þúsund bifreiðar hafi verið pantaðar. Spurður út í fjölda pantana frá Íslandi ítrekar Roland að þær upplýsingar séu ekki gefnar upp, en hann staðfestir að „umtalsverður áhugi“ hafi komið frá Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK