Lifnar yfir bílaleigunum

Mynd úr safni af erlendum ferðamönnum á Þingvöllum. Vonandi streyma …
Mynd úr safni af erlendum ferðamönnum á Þingvöllum. Vonandi streyma þeir bráðum aftur til landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísbendingar eru um fyrstu merki umskipta í komum erlendra ferðamanna til Íslands og benda samtöl við fólk innan greinarinnar til þess að útlendingar séu mjög áhugasamir um að heimsækja landið.

Eva Jósteinsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Center Hotels, segir bókunum ekki hafa fjölgað að neinu ráði en aftur á móti berist hótelkeðjunni fjöldi fyrirspurna frá fólki sem hafði tekið frá gistingu í sumar og ekki enn afbókað. „Okkur virðist sem erlendir ferðamenn séu að bíða átekta og vilji sjá hvernig gengur þessar fyrstu tvær vikur eftir að landið var opnað með skimunum við komu. Við bíðum spennt eftir að sjá bæði hvernig flugframboðið mun þróast og hvernig gengur að selja í vélarnar og getum svo sannarlega tekið á móti miklu fleiri ferðalöngum,“ segir hún.

Eva Jósteinsdóttir.
Eva Jósteinsdóttir.

Center Hotels rekur sjö hótel á höfuðborgarsvæðinu en fjórum þeirra hefur verið lokað vegna hruns í komum ferðamanna. Framkvæmdir standa yfir við áttunda hótelið og var opnun þess frestað frá sumri yfir á haustmánuði. Eva hefur haft spurnir af því að hótelum á landsbyggðinni gangi ágætlega að fylla herbergi af gestum um helgar enda virðast landsmenn hafa einsett sér að ferðast vítt og breitt um Ísland í sumar. „Okkar vandi er að öll okkar hótel eru í miðborg Reykjavíkur og um 85% þjóðarinnar búa í innan við 15 mínútna fjarlægð frá okkur. Við höfum þó náð ágætis árangri með tilboðum sem tvinna saman gistingu, kvöldverð á þeim skemmtilegu veitingastöðum sem við starfrækjum og notalega stund í heilsulind. Hafa ófá pör á höfuðborgarsvæðinu notað tækifærið til að gera sér glaðan dag í miðbænum og gista hjá okkur frekar en að taka leigubíl heim.“

Eva segir að tekjutap undanfarinna mánaða hafi vissulega verið mikill skellur fyrir Center Hotels. „En við erum brött og ætlum að komast í gegnum þetta. Hitt er ljóst að það er ekki ólíklegt að áhrif kórónuveirufaraldursins verði sumum hótelum um megn enda ekki auðvelt að lifa það af að klippt skuli á allar tekjur nánast á augabragði. Mikið hefur verið fjárfest í greininni á undanförnum árum og klárt að hjá sumum mjög flottum fyrirtækjum er svigrúmið svo lítið að þau standa áfallið ekki af sér.“

Þjóðverjar og Danir taka frá bíla í sumar

Vísbendingarnar um viðsnúning virðast enn greinilegri í bílaleigugeiranum. Alexander Haraldsson, framkvæmdastjóri Lotus Car Rental, segir að töluvert hafi borist af nýjum bókunum að undanförnu. Bílaleigumarkaðurinn tók að kólna í lok janúar og botnfraus endanlega um miðjan mars en nú eru erlendir viðskiptavinir aftur byrjaðir að huga að því að heimsækja landið.

Alexander Haraldsson.
Alexander Haraldsson.

„Mest er fólk að bóka í júní, júlí, ágúst og september en venjulega berast bókanir fyrir sumarmánuðina mun fyrr og fólk því að huga að ferðalögum með skemmri fyrirvara en það gerir venjulega á þessum árstíma,“ segir Alexander. „Að bóka bíl er oft það síðasta sem fólk gerir, eftir að hafa keypt flugmiða og gengið frá gistingu, og sennilega koma þær bókanir sem eru að berast núna frá fólki sem hafði bókað ferð til Íslands fyrir löngu en beðið með að blása ferðalagið af í þeirri von að flug til og frá landinu kæmist í eðlilegt horf.“

Koma pantanirnar einkum frá Evrópu, flestar frá Þýskalandi og Danmörku. Þar á eftir koma Bretland og Bandaríkin.

Áhugavert er að leigutíminn er að jafnaði lengri en í venjulegu árferði og bendir það til að þeir erlendu gestir sem setja stefnuna á Ísland í sumar ætli að hafa lengri viðdvöl. Er það kannski vegna þess að hafa þarf meira fyrir ferðalaginu en venjulega og því eins gott að taka langt og gott frí fyrst verið er að fljúga á milli landa á annað borð. Er meðallengd bókana hjá Lotus í júlí og ágúst nærri 50% meiri en á sama tímabili í fyrra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK