Tíu sagt upp hjá Borgun – ætla að ráða 60

Salt Pay keypti Borgun að fullu nýlega.
Salt Pay keypti Borgun að fullu nýlega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgun hefur sagt upp samtals tíu starfsmönnum, þar á meðal forstjóra fyrirtækisins. Munu þeir Eduardo Pontes og Marcos Nunes taka við sem nýir forstjórar fyrirtækisins. Þá stefnir fyrirtækið á að ráða sextíu manns hér á landi á næstu sex mánuðum, en framtíðarsýn Salt Pay, nýs eigenda Borgunar, er að ná fram umtalsverðri markaðshlutdeild á meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópu.

Í gær var greint frá því að Sæmundur Sæmundsson hafi látið af störfum hjá fyrirtækinu og að þeir Eduardo og Marcos tækju við stjórn félagsins í sameiningu. Eduardo var áður forstjóri brasilíska fjártæknifyrirtækisins Stone co og Marcos var framkvæmdastjóri alþjóðlegrar færsluhirðingar og ytri vaxtar hjá sænska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Bambora.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu í dag má búast við umtalsverðum breytingum á næstunni. „Ráðning stjórnar fyrirtækisins á Eduardo Pontes og Marcos Nunes, sem eru nýir forstjórar Borgunar, er upphafið á endurskipulagningu félagsins,“ segir þar meðal annars.

Sæmundur Sæmundsson hættir sem forstjóri Borgunar hf.
Sæmundur Sæmundsson hættir sem forstjóri Borgunar hf. Mynd/Borgun hf

Í tilkynningunni kemur fram að samtals hafi 10 manns verið sagt upp hjá fyrirtækinu. Samkvæmt heimildum mbl.is er þar á meðal um helmingur framkvæmdastjórnar félagsins. Á móti stefnir Borgun á að ráða 60 manns á næstunni og verður þar sérstaklega horft til ungs fólks sem er nýútskrifað úr námi. Segir í tilkynningunni að það muni fara í gegnum sérstaka þjálfun á ýmsum sviðum, en samkvæmt heimasíðu félagsins er um að ræða þriggja mánaða námskeið.

Eftir uppsagnir þessara 10 starfa nú í dag um 130 manns hjá félaginu, en ætti með ráðningum að fjölga umtalsvert á næstu sex mánuðum. Í tilkynningunni segir 

Ætlar Salt Pay Co Ltd. jafnframt að leggja umtalsverða fjármuni í uppbyggingu félagsins á næstunni

Haft er eftir Marcos í tilkynningunni að með ungu fólki sé horft til þess hóps sem þurfi að fá tækifæri á vinnumarkaði. „Við erum afar spennt fyrir að geta boðið ungu fólki á Íslandi ný tækifæri hjá ört stækkandi fyrirtæki. Það er sá hópur sem hefur orðið hvað verst úti í kjölfarið á COVID-19 og þarf nauðsynlega að fá sitt fyrsta tækifæri á vinnumarkaðnum. Við munum bjóða þeim þjálfun þar sem þau læra að þekkja þarfir viðskiptavina, þróa vörur og lausnir sem tryggja að söluaðilar fái bestu mögulega þjónustu.“

Þá segir hann að vilji standi til að „skapa frumkvöðlaumhverfi hjá Borgun sem höfði til næstu kynslóðar leiðtoga í viðskiptalífinu og tæknigeiranum. Við vitum að ungt fólk á Íslandi vill láta til sín taka, láta gott af sér leiða og fá tækifæri til að starfa í alþjóðlegu umhverfi þar sem það getur byggt upp reynslu og öðlast hæfni sem skapar þeim farsælan starfsframa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK