78,4 milljarða halli hjá ríkinu á öðrum ársfjórðungi

Tekjur drógust saman á sama tíma og útgjöld hækkuðu mikið …
Tekjur drógust saman á sama tíma og útgjöld hækkuðu mikið á öðrum ársfjórðungi. Rekja má það til áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. mbl.is/Golli

Afkoma hins opinbera var neikvæð um 78,4 milljarða á öðrum ársfjórðungi, en þar leika áhrif af kórónuveirufaraldrinum stórt hlutverk og lækka tekjur um 7,1% frá sama tímabili í fyrra og heildarútgjöld hækka um 13,9% milli ára. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í dag.

Áætlað er að heildarafkoman sé neikvæð sem nemi 11,2% af vergri landsframleiðslu fjórðungsins, en efnahagsaðgerðir stjórnvalda sem gripið var til vegna faraldursins hafa haft neikvæð áhrif bæði á tekju- og útgjaldahliðina.

Áætlað er að tekjur af sköttum á tekjur og hagnað hafi dregist saman um 9%, en þar vegur þungt frestun greiðslna af tekjuskatti einstaklinga og frestun á fyrirframgreiðslu tekjuskatts lögaðila. Þá er áætlað að tekjur af tryggingagjaldi hafi dregist saman um tæplega 16%, en það skýrist bæði af 0,25 prósentustiga lækkun gjaldsins sem og frestun á greiðslu þess.

Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að mikil óvissa ríki um innheimtuhlutfall í tengslum við úrræði stjórnvalda, þar með talið frestun á skattgreiðslum. Samkvæmt alþjóðlegum staðli um opinber fjármál er uppgjör hins opinbera á rekstrargrunni en þar eru afskrifaðar skatttekjur dregnar frá. Þegar betri upplýsingar liggja fyrir verður uppgjörið endurskoðað.

Graf/Hagstofa Íslands

Af útgjöldum ríkisins hækkaði liðurinn félagslegar tilfærslur til heimila um 58% milli ára, en þar inni eru meðal annars útgjöld til atvinnuleysistryggingasjóðs sem er stærsti hluti aukningarinnar. Þá var félagsleg tilfærsla vegna faraldursins upp á þrjá milljarða í formi barnabótaauka. Framleiðslustyrkir hækkuðu einnig um 56% milli ára, en þar er stærsti liðurinn greiðsla launa á uppsagnarfresti, en sú upphæð nam 5 milljörðum á öðrum ársfjórðungi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK