„Upp er runninn tími samdráttar og atvinnuleysis“

Árni Sig­ur­jóns­son, formaður Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi í dag.
Árni Sig­ur­jóns­son, formaður Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkefni næstu þrjátíu ára er að skapa 60 þúsund ný störf á Íslandi, eða sem nemur 40 ný störf í hverri viku. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja góð efnahagsleg lífsgæði fyrir landsmenn. Kórónuveirufaraldurinn og aukið atvinnuleysi í kjölfarið gerir þetta enn stærra verkefni en rétta leiðin er með því að nota hugvitið og nýta nýsköpun til verðmætasköpunar. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Árna Sigurjónssonar, formanns Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi í dag.

Árni sagði að horfast þyrfti í augu við stöðuna eins og hún er í dag og að ákvarðanir þyrftu að vera í samræmi við það. „Liðnir eru dagar þægilegra umræðna um góða stöðu þjóðarbúsins. Liðnir eru dagar launahækkana umfram svigrúms í efnahagslífinu. Liðnir eru dagar hægfara umbóta og hagvaxtar án fyrirhafnar. Upp er runninn tími samdráttar og atvinnuleysis sem þarf að vinna bug á. Upp er runnið tímabil djarfra ákvarðana og mótunar atvinnustefnu til lengri tíma en eins kjörtímabils,“ sagði Árni í ávarpi sínu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvatar frekar en að hækka grunnatvinnuleysisbætur

Árni sagði að atvinnurekendur hefðu gert verkalýðsforystunni grein fyrir því að ekki væri innistæða fyrir launahækkunum um þessar mundir því svigrúmið sem áætlað var að myndi skapast á samningstíma væri horfið „og miklu meira en það.“ Sagði hann að talað hefði verið fyrir daufum eyrum en verkalýðsforystan kosið að standa vörð um samningsbundnar hækkanir frekar en að standa vörð um störf umbjóðenda sinna.

Undanfarna mánuði hefur ríkið farið í miklar efnahagslegar aðgerðir til að mæta áhrifum af kórónuveirufaraldrinum. Sagði Árni að í staðinn fyrir að „daðra við þá hugmynd að hækka grunnatvinnuleysisbætur“ eins og þrýst hafi verið á um, þá ætti að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að ráða fólk til starfa. Nefndi hann átakið Allir vinna sem gott dæmi um slíkan hvata, en þar er 100% endurgreiðsla af virðisaukaskatti vegna vinnu iðnaðarmanna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Árni tók í ræðu sinni einnig fram að hlutverk stjórnvalda væri fyrst og fremst að varða veginn og skapa góð skilyrði. „Ríkið á hins vegar ekki að velja sigurvegara eða að beina nýsköpun inn á tiltekin svið umfram önnur. Sóknarfærin liggja mjög víða en við þurfum að hreyfa okkur hraðar og gera róttækari breytingar á starfsumhverfinu en við höfum áður séð.“

Nýr Tækniskóli mikilvægur

Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á iðn- og starfsnám og sagði Árni að í samtölum sínum við ríki og sveitarfélög síðustu mánuði hafi hann lagt áherslu á að ráðist væri í byggingu nýs Tækniskóla, þar sem núverandi aðbúnaður skólans standi iðn-, verk- og starfsnámi fyrir þrifum. „Slík bygging er að okkar mati lykilskref til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar og íslensks atvinnulífs í þessum málaflokki,“ sagði Árni.

Endaði hann ræðu sína á að blása félagsmönnum sínum von í brjóst og minna á mikilvægi nýsköpunar. „Þótt spáin sé slæm og útlitið ljótt skulum við þrátt fyrir allt ekki gleyma öllum sóknarfærunum sem blasa við okkur. Við þurfum á samhentu átaki að halda til að okkur auðnist að skapa 60 þúsund ný störf næstu þrjá áratugina. Vaxtarmöguleikar grunnstoða hagkerfisins eru takmarkaðir og því verður vöxturinn að koma annars staðar frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK