Vöruviðskipti við Bretland tryggð

Enn er óvíst um niðurstöðu fríverslunarviðræðna Bretlands og Evrópusambandsins þó …
Enn er óvíst um niðurstöðu fríverslunarviðræðna Bretlands og Evrópusambandsins þó báðir aðilar stefni að samningi. AFP

Ísland, Noregur, Liechtenstein og Bretland hafa sammælst um að bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti taki gildi hafi fríverslunarsamningur ekki verið undirritaður fyrir áramót svo óbreytt viðskiptakjör verði áfram tryggð. Góður gangur er í fríverslunarviðræðunum og er stefnt að því að ljúka þeim á tilsettum tíma.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir, að fríverslunarviðræður Íslands og hinna EES EFTA-ríkjanna, Noregs og Liechtenstein, við Bretland standi nú yfir og gangi vel, þrátt fyrir að hafa hafist seinna en ráð fyrir gert vegna kórónuveirufaraldursins. Samninganefndir hafa hist reglulega á rafrænum fundum með það að markmiði að ljúka viðræðum tímanlega svo að nýr fríverslunarsamningur geti tekið gildi um áramótin þegar svonefndu aðlögunartímabili lýkur.

„Þrátt fyrir góðan gang í fríverslunarviðræðunum hafa stjórnvöld í ríkjunum fjórum nú samþykkt að verði fríverslunarsamningur ekki undirritaður fyrir áramót taki gildi bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti uns fríverslunarsamningurinn er tilbúinn. Þann samning, sem var upphaflega gerður í apríl 2019, stóð til að nota ef útganga Bretlands úr ESB hefði verið án samnings. Óháð þessu munu fríverslunarviðræður halda áfram af fullum krafti,“ segir í tilkynningunni.

Tvær mögulegar sviðsmyndir

„Þannig er um að ræða tvær mögulegar sviðsmyndir: Annað hvort tekur gildi um áramótin nýr fríverslunarsamningur eða bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti. Þótt gangurinn sé góður í fríverslunarviðræðunum er mikilvægt að við höfum tryggt óbreytt viðskiptakjör fyrir íslensk fyrirtæki við Bretland óháð því hvort þeim ljúki á tilsettum tíma,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í tilkynningunni. 

Þá segir, að bráðabirgðasamningurinn tryggi að útflutningur til Bretlands lúti ekki hærri tollum en í dag. Markmið samningsins sé þannig að viðhalda gildandi kjörum þar til samið hafi verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna.

„Enn er óvíst um niðurstöðu fríverslunarviðræðna Bretlands og Evrópusambandsins þó báðir aðilar stefni að samningi. Bæði Bretar og EFTA-ríkin innan EES eru þó sammála um að viðræður þeirra á milli haldi óhikað áfram þótt að viðræður Evrópusambandsins og Bretlands skili ekki árangri,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK